146. löggjafarþing — 76. fundur,  31. maí 2017.

sala á Flugstöð Leifs Eiríkssonar.

[11:03]
Horfa

Óli Halldórsson (Vg):

Virðulegi forseti. Undanfarið hefur verið rætt um mögulega sölu á hlut ríkisins í alþjóðaflugstöðinni í Keflavík. Yfirlýsingar þar um hafa m.a. komið frá fulltrúum ríkisstjórnarinnar og nú síðast í morgun var fjallað um málið í fjölmiðlum. Í viðtali við forstjóra Isavia í Fréttablaðinu kemur m.a. fram, með leyfi forseta, að fjárfestar séu þegar farnir að sýna áhuga.

Ég vil því spyrja hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra, sem er handhafi eignarhlutar ríkisins: Hefur hann fundið fyrir slíkum áhuga? Hafa erlendir eða innlendir fjárfesta sett sig í samband vegna áhuga á kaupum á Keflavíkurflugstöð? Hvernig hafa þessi samskipti verið við fjárfestana? Og að lokum: Hver er yfir höfuð afstaða hæstv. ráðherra til einkavæðingar Keflavíkurflugstöðvar í heild sinni eða hlutum?