146. löggjafarþing — 76. fundur,  31. maí 2017.

styrking krónunnar og rekstrarumhverfi fyrirtækja.

[11:28]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Benedikt Jóhannesson) (V):

Frú forseti. Umræðan um íslensku krónuna sem hv. þingmaður tók með svo tilfinningaríkum hætti hér í lokin einkennist auðvitað af mikilli sveiflu, annars vegar þannig að erlendur gjaldmiðill verður svo dýr að það íþyngi almenningi verulega eða að krónan verður svo sterk eins og hún er núna að almenningur sjái í því mikla kjarabót. Á sama tíma eru fyrirtækin þá að veikjast sem og grunnstoðir samfélagsins. Þetta eigum við að sjálfsögðu að ræða opinskátt.

Ég er líka sammála hv. þingmanni um að við eigum að skoða fleira en þetta. Það er enginn vafi á því að lækkun virðisaukaskatts úr 24% í 22,5% verður veruleg kjarabót fyrir almenning en ég vil ekki segja að við eigum þar með að slá út af borðinu hugmyndir um lækkun á tryggingagjaldi.