146. löggjafarþing — 77. fundur,  31. maí 2017.

jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla.

437. mál
[21:06]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Við erum í nokkuð sérkennilegri stöðu með þetta mál. Nú er það þannig að sá er hér stendur hefur unnið ötullega að jafnréttismálum sem ráðherra, alþingismaður og innan Framsóknarflokksins. Ásamt fyrrverandi forsætisráðherra, hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, undirritaði ég þátttöku Íslands í hinni svokölluðu HeForShe-baráttu og hvet ég alla alþingismenn, karlmenn sérstaklega, til að skrifa undir það. En það sem er verið að gera hér er í raun, eins og hv. þm. Birgitta Jónsdóttir orðaði það, eins og mús á ferðinni, eitthvert tíst. Ríkisstjórnin er að reyna að gera þessa mús að fíl, reyna að telja okkur trú um að þetta leysi launamun kynjanna, þessi vegferð og þetta mál, sem það gerir að sjálfsögðu ekki. Kannski er þetta jákvætt, kannski er þetta pínuskref í þá átt. En þetta leysir ekki vandann. Ég hef áhyggjur af að þetta dragi athyglina frá vandanum. Það er það sem ég hef áhyggjur af. Ég held að það þurfi líka að vinna þetta miklu betur eins og fram hefur komið. Þetta er klúðurslegt mál að miklu leyti. Ég get ekki greitt því atkvæði, sem mér finnst mjög miður því að við erum að tala hér um eitt af stærstu málum þjóðarinnar hverju sinni. Þetta er mannréttindamál (Forseti hringir.) en ríkisstjórnin og stjórnarflokkarnir eru búin að gera þetta að einhvers konar bastarði.