146. löggjafarþing — 78. fundur,  1. júní 2017.

stjórn fiskveiða.

612. mál
[00:31]
Horfa

Páll Magnússon (S):

Frú forseti. Ég gerði hér við 1. umr. málsins grein fyrir innihaldi þessa frumvarps um framlengingu á ýmsum bráðabirgðaákvæðum laga um fiskveiðistjórnun. Ég vildi líka nota tækifærið í þessu efni til að vekja athygli þingheims á því að það kunna að vera á leiðinni býsna alvarleg tíðindi af rekstrarstöðu allmargra, sérstaklega lítilla og meðalstórra, fyrirtækja í sjávarútvegi, einkum þeirra sem eru í bolfiskveiðum og -vinnslu. Þetta eru þau fyrirtæki sem farið hafa hvað verst út úr öllum þeim þáttum sem þróast hafa í neikvæða átt á undanförnum misserum í þessari atvinnugrein. Það eru launahækkanir, hækkað gengi íslensku krónunnar og það eru áhrifin af sjómannaverkfallinu. Við bætist að mörg þessara fyrirtækja hafa undanfarin fimm ár verið á sérstökum skuldatengdum afslætti frá veiðigjaldi sem hættir núna í september og ekki er meiningin að endurnýja. Önnur fyrirtæki greiða núna á árinu 2017, sem er eitt versta árið sem verið hefur í rekstri þessara fyrirtækja, afkomutengt veiðigjald fyrir árið 2015, sem var aftur á móti eitt besta árið á síðasta áratug eða svo. Bara rétt til að nefna dæmi um hvernig staðan hefur versnað þá voru útflutningsverðmæti sjávarafurða núna í febrúar sl. 53% minni en þau voru í febrúar í fyrra og framlegð þessara fyrirtækja hefur snarminnkað.

Ég hef rætt um það við sjávarútvegsráðherra að í sumar verði gerð sérstök úttekt á þessum rekstri og tilkynningar þess efnis er að vænta innan tíðar, um að þessir næstu þrír mánuðir eða svo verði notaðir til að fara í saumana á stöðu þessara fyrirtækja.