146. löggjafarþing — 78. fundur,  1. júní 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[01:48]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Frú forseti. Ríkisstjórnin verður sér einnig til skammar þegar kemur að málefnum öryrkja og fatlaðs fólks. Formaður Öryrkjabandalagsins lýsir þeirri stöðu ágætlega í Fréttablaðinu í dag. Ríkisstjórnin dregur lappirnar í því að bæta kjör öryrkja og á meðan búa örorkulífeyrisþegar við flókin og ógagnsæ réttindi almannatrygginga, með krónu á móti krónu skerðingum á þann hóp sem verst stendur. Ef alvara er að baki því að grípa til aðgerða sem stuðla geta að því að fækka fólki með örorkumat ættu stjórnvöld að leggja höfuðáherslu á aukin jöfnuð. Breytingartillögur Samfylkingarinnar eru um að öryrkjar fái kjarabætur strax á næsta ári. Öryrkjar eiga það inni eftir öll kosningaloforðin að tekið verði til við breytingar strax á næsta ári, að þau verði ekki látin bíða til ársins 2019 til að fá smánarlegar bætur og út áætlunartímann.