146. löggjafarþing — 78. fundur,  1. júní 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[01:55]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Við Vinstri græn leggjum fram tillögu til að koma til móts við það sem komið hefur fram hér í umræðunni, komið fram í umsögnum aðila um ríkisfjármálaáætlun, en við sýnum einnig ábyrgð og leggjum til aukinn afgang. Því að ef fjármálaáætlun fyrir árin 2018–2022 á að þjóna markmiðum um eflingu mikilvægra innviða, m.a. á sviði heilbrigðis-, mennta- og samgöngumála, gefa færi á að bæta kjör öryrkja og aldraðra og til umbóta í húsnæðis- og fjölskyldumálum þarf að stækka útgjaldaramma og auka tekjur á móti. Hér er verið að leggja til nokkuð meiri tekjuöflun en sem nemur aukningu útgjalda, einkum framan af tímanum. Það leiðir til meiri afgangs af rekstri ríkissjóðs sem nemur um 0,5% af vergri landsframleiðslu fyrstu tvö ár tímabilsins en nokkru minna eftir það. Þessi áhersla gegnir þeim mikilvæga hagstjórnarlega tilgangi að vinna gegn þenslu og styrkingu gengis gjaldmiðilsins sem auðveldar lækkun vaxta. Sökum þess hversu óljósar forsendur eru í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar og plaggið ógagnsætt er óhjákvæmilegt að í stað sundurliðaðra (Forseti hringir.) útgjalda í núverandi áætlun verði ramminn stækkaður til að koma til móts við verulega þörf.