146. löggjafarþing — 79. fundur,  1. júní 2017.

tillögur dómsmálaráðherra um skipun dómara við Landsrétt.

622. mál
[13:30]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Ég verð að játa að ég klóraði mér ansi mikið í kollinum yfir henni því að mér fannst eiginlega ekki neitt innra samræmi í henni. Hv. þingmaður vill ekki hafa þetta vald. Greiddu þá ekki atkvæði. Þetta er ósköp einfalt mál. Ef þú, hv. þingmaður, vilt ekki hafa það vald að þurfa að samþykkja eða synja eða staðfesta þessa tillögu er bara fínasti takki þarna í atkvæðaborðinu þínu sem heitir „Greiði ekki atkvæði“ og þá uppfyllir hv. þingmaður allar þær væntingar sem hann gerir til þess hverjir þetta eigi að vera. Það er bara fínt. Það er eðlilega niðurstaðan.

Hv. þingmaður virðist bara, fyrirgefið orðbragðið, vera algjörlega úti að aka í þessu máli. Það er enginn að tala um að fara að raða listanum upp á nýtt. Hvar hefur hv. þingmaður verið í umræðunni um þessi mál? Það er verið að tala um að stunda fagleg vinnubrögð, fá aukinn rökstuðning, að gefa ráðherra tóm til að rökstyðja tillögu sína betur. Hún getur orðið alveg eins, það getur vel endað þannig, en hún getur þá verið (Forseti hringir.) með almennilegum rökstuðningi sem er Alþingi bjóðandi.

Um hvað er hv. þingmaður að tala, að við ætlum að fara að raða hér listum upp á nýtt? Hvaða strámannatilbúningur er þetta? (Gripið fram í.)