146. löggjafarþing — 79. fundur,  1. júní 2017.

tillögur dómsmálaráðherra um skipun dómara við Landsrétt.

622. mál
[14:25]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Að sjálfsögðu hljótum við öll að vera sammála um að réttarríkið sé á þann veg að við getum treyst því. Ég hjó eftir einu í orðum þingmannsins. Þingmaðurinn notaði orðið „viðunandi“ um málsmeðferðina. Ég hefði talið að það ætti að vera „óyggjandi“. Ég hefði talið það. Ég verð að segja, fyrst hv. þingmaður talar um að hv. þingmaður upplifi að málsmeðferðin sé viðunandi fyrir sína parta, að málsmeðferðin fyrir marga þingmenn sem áttu sæti í nefndinni var alls ekki viðunandi, alls ekki óyggjandi, heldur algjörlega ófullnægjandi til að við getum tekið upplýsta ákvörðun. Mér finnst ekki fallegt þegar þingmenn taka réttinn af öðrum þingmönnum til að ganga upplýstir um svona mikilvæg mál.