146. löggjafarþing — 79. fundur,  1. júní 2017.

tillögur dómsmálaráðherra um skipun dómara við Landsrétt.

622. mál
[15:32]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Herra forseti. Ráðherra segir áður en skipun á sér stað, þ.e. áður en mat dómnefndar liggur fyrir, að hún vilji ekki að litið sé sérstaklega til dómstarfa, að hún leggi ekki sérstaka áherslu á það, heldur vilji hún sjá mikla fjölbreytni í skipun þessa dómstóls. Ráðherra segir áður en mat dómnefndar liggur fyrir að hún hafi enga trú á því að líta beri til kynjasjónarmiða við skipun í þennan nýja dómstól af því að hún trúi ekki á slíkan málflutning. Af hverju ættum við að treysta því þegar ráðherra, eftir að þetta mat liggur fyrir, kemur með einhverjar allt aðrar forsendur sem hún hefur sjálf talað gegn? Þetta er það sem veldur tortryggni minni hlutans á þinginu. Af hverju ættum við að trúa því þegar ráðherra talar gegn því sem hún hefur áður sagt, um eitthvað sem hún hafði líka fullkomið vald til þess að breyta áður en matsnefndin tók til starfa en gerði ekki? Hún notar núna sömu forsendur og hún talaði gegn áður en matið lá fyrir til þess að réttlæta það að breyta matinu eftir á. Það er (Forseti hringir.) fullkomlega ólíðandi. Það er það sem ágreiningurinn snýst um, ekki einhverjar tölur á blaði.