146. löggjafarþing — 79. fundur,  1. júní 2017.

tillögur dómsmálaráðherra um skipun dómara við Landsrétt.

622. mál
[15:57]
Horfa

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég var einmitt að vitna til þess þar sem þau voru ekki nefnd, hvort þau rök þurfi að vera svo hægt sé að taka fleiri konur inn í Landsrétt, eins og mikil krafa var um og eins og hæstv. ráðherra sagði hér, að lög um jafnrétti giltu um þetta líkt og annað. Þá velti ég því fyrir mér, eins og hv. þm. Jón Steindór Valdimarsson, hvernig umræðan væri ef þessi listi, sem þingmönnum er tíðrætt um að sé afar vel rökstuddur og ekki sé skynsamlegt að víkja frá, væri til umfjöllunar, með tíu karlmönnum og fimm kvenmönnum. Og hvort það gæti mögulega verið að hæfnisnefndin hafi, eins og hv. þingmaður talaði um fyrr í vetur, karllæg sjónarmið sem bitna á konum, í þessu mati hæfnisnefndarinnar. Ég tel, af því að þetta eru allt taldir hæfir einstaklingar, að hægt sé að skipa konur þarna inn án þess að vísað sé í sérstök kynjasjónarmið þess efnis.