146. löggjafarþing — 79. fundur,  1. júní 2017.

tillögur dómsmálaráðherra um skipun dómara við Landsrétt.

622. mál
[16:08]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að vitna í mín orð, þau standa enn. Hins vegar virðist gæta ákveðins misskilnings hjá hv. þingmanni um meiningu þessara orða. Minni hluti allsherjar- og menntamálanefndar lagði til breytingartillögu þess efnis að hæfnisnefnd um mat á hæfni dómara yrði falið að líta til laga um jafnan rétt og jafna stöðu karla og kvenna við mat sitt á hæfi dómara. Út á það gekk okkar málflutningur. Þegar í ljós kom að við þessu yrði ekki orðið þá báðum við hv. þingmann um að standa með okkur í því að þessi sjónarmið yrðu tryggð.

Hins vegar er það svo og það hefur komið fram í máli hæstv. dómsmálaráðherra að þetta væru ekki rök sem hún hygðist líta til. Það er nú eitt af því sem sáir tortryggni hér í þessum sal að hún hafði engan hug á þessu, en notar það nú sem einhvers konar eftiráskýringu, að hún hafi litið til kynjasjónarmiða við matið. En þegar við sjáum að hún tekur karl úr 30. sæti og færir hann upp fyrir margar konur sem voru metnar hæfari þá tel ég það ekki trúverðugt, herra forseti. (Forseti hringir.)

Ég vil því spyrja hv. þingmann: Finnst honum þetta trúverðugt ferli sem er búið að fara í gegnum hérna?