146. löggjafarþing — 79. fundur,  1. júní 2017.

tillögur dómsmálaráðherra um skipun dómara við Landsrétt.

622. mál
[16:53]
Horfa

Lilja Alfreðsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Fyrirliggjandi tillaga dómsmálaráðherra varðar heildarskipan á nýjum dómstól sem falið er mikilvægt nýtt hlutverk í dómskerfi landsins og markar ákveðin tímamót í réttarsögunni. Af þeirri ástæðu er það grundvallaratriði og eðlileg krafa að vandað sé til verka og skipun dómara sé hafin yfir allan vafa.

Eins og þingheimi er kunnugt um liggur fyrir tillaga dómsmálaráðherra um 15 dómara við nýjan Landsrétt. Ljóst er að tillaga ráðherra er ekki í samræmi við tillögu dómnefndar sem mat 15 umsækjendur hæfasta og skilaði áliti þar að lútandi til ráðherra. Í tillögu sinni nýtir ráðherrann sér hins vegar heimild í lögum um breytingu á lögum um dómstóla. Tillaga ráðherra felur í sér að fjórir umsækjendur af þeim 15 sem dómnefnd taldi hæfasta eru felldir brott og aðrir fjórir umsækjendur koma í þeirra stað. Breytingin frá tillögu dómnefndar er veruleg, enda er um meira en fjórðung dómara að ræða. Minni hlutinn deilir ekki um að ráðherrann hafi heimild til að víkja frá mati dómnefndar svo fremi sem meiri hluti Alþingis samþykki þá tilhögun. Hins vegar er ráðherra ekki undanþeginn þeirri meginreglu stjórnsýslulaganna sem fjallað hefur verið um í dómum og álitum umboðsmanns Alþingis og byggt hefur verið á hér á landi í langan tíma, að skipa skuli þann hæfasta sem völ er á úr hópi umsækjenda. Sú regla tryggir almannahagsmuni og uppfyllir jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar.

Athugasemdir mínar lúta einkum að þrennu: Í fyrsta lagi hefði ráðherrann þurft meiri tíma í heildstæðan rökstuðning fyrir hverjum og einum umsækjanda. Það hefði hæstv. ráðherra þurft að leggja fram því að það er óheppilegt að rökstuðningur ráðherra taki breytingum eftir því sem málinu vindur fram. Það er lágmarkskrafa löggjafans að allur rökstuðningur liggi fyrir áður en ráðherra tekur ákvörðun um tillögu sína til Alþingis. Hæstv. ráðherra leggur upp með að hún vilji gefa dómarareynslu meira vægi. Það eru góð rök í málinu að mínu mati. Ef hæstv. ráðherra gefur hins vegar einni breytu meira vægi þá þarf það að ná yfir allan umsækjendahópinn en ekki bara breytingu á hópnum. Því kann að vera að röðun á umsækjendum gæti þá breyst. Að mínu mati er þetta mikill veikleiki í öllu málinu. Lögin sníða ráðherra vissulega þröngan stakk hvað varðar tímafrest í kringum skipan dómara.

Það er mat minni hlutans að bæði ráðherra og Alþingi hefðu þurft meiri tíma til að afgreiða þetta mál sem snýst um skipan 15 nýrra dómara í Landsrétt, þannig að ráðherra gæti uppfyllt rannsóknarskyldu sína með óyggjandi hætti og þing gæti komið saman síðar í sumar til að ljúka málinu.

Í öðru lagi er ég sammála minni hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar um að ef ráðherra ákveður að víkja frá mati dómnefndar beri honum að framkvæma eigin rannsókn á hæfni umsækjenda þannig að enginn vafi leiki á því að hæfustu einstaklingarnir séu skipaðir í samræmi við gildandi meginreglu laga.

Í þriðja lagi virðist ekki hafa verið unnt að afla nægilegra sérfræðiálita í málinu. Það er í takt við álit þeirra gesta sem komu fyrir nefndina sem töldu að gera þyrfti enn frekari sérfræðilega skoðun á því hvort ráðherrann hefði framfylgt fullnægjandi mati á einstökum umsóknum miðað við þau sjónarmið sem hún teldi að samræmdust best þörfum Landsréttar. Þar af leiðandi hefði þurft miklu meiri tíma og meiri aðgang að gögnum. Þá hefði stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd einnig verið skammtaður of skammur tími við skoðun málsins.

Það var því miður ekki vilji hjá meiri hlutanum til að fresta afgreiðslu málsins til að veita ráðherra tækifæri til að bæta úr annmörkunum og tryggja vandaða málsmeðferð. Ég er sannfærð um að þverpólitísk sátt hefði náðst um málið og auðvitað var það afskaplega óheppilegt í gær að ríkisstjórnin og meiri hlutinn vildu keyra málið í gegn í skjóli nætur. Hér er um grundvallaratriði að ræða. Verið er að breyta dómskerfinu og meiri hlutinn vildi ræða það hér eftir miðnætti. Það er náttúrlega algjörlega ólíðandi. Minni hlutinn var tilbúinn til þess að koma til móts við það og að við myndum fresta þessu máli.

Virðulegi forseti. Að lokum vil ég segja að um er að ræða grundvallarmál sem varðar skipun nýs dómstóls sem falið er mikilvægt hlutverk í dómskerfi landsins og markar tímamót í réttarsögunni. Þess vegna er svo mikilvægt að vanda til verks. Því miður hefur Alþingi ekki fengið nægilegan tíma til að reifa þetta mál til þess að við náum þverpólitískri sátt um það, því að það er svo sannarlega hugur okkar í minni hlutanum að ná slíkri sátt til þess að sem mest traust og trúnaður ríki til dómstólanna.