146. löggjafarþing — 79. fundur,  1. júní 2017.

tillögur dómsmálaráðherra um skipun dómara við Landsrétt.

622. mál
[17:30]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Við höfum tvær tilraunir til þess annars vegar að vísa málinu frá, sem er vantrauststillaga á þessi verkbrögð, og hins vegar að segja nei við listanum og þá vinnubrögðum ráðherra. Það er ekki vilji minn að varpa efasemdum á nýtt dómstig. Sú ábyrgð fellur algjörlega á ráðherra fyrir að rökstyðja ekki ákvörðun sína og stjórnina fyrir að krefjast flýtimeðferðar. Það er á borðinu mjög raunhæf tillaga um að ná sátt. Möguleikinn á að þingið fái tækifæri til að skoða málið betur og kvitta undir val ráðherra þannig að tilnefningin sé yfir vafa hafin hlýtur að vera mikilvægari en sá efi sem fellur á nýja dómstigið. Þess vegna er ekki hægt að hunsa tækifærið til þess að gera betur og það getur ekki annað en leitt til betri niðurstöðu. Það getur alla vega ekki leitt til verri niðurstöðu en við stöndum frammi fyrir núna. Ábyrgðin á þeirri ákvörðun liggur hjá þér, hv. þingmaður, og hjá þér hæstv. ráðherra.