146. löggjafarþing — 79. fundur,  1. júní 2017.

tillögur dómsmálaráðherra um skipun dómara við Landsrétt.

622. mál
[17:33]
Horfa

Smári McCarthy (P) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Við höfum ekki beðið um mikið í þessu ferli. Við höfum bara beðið um rök. Við höfum bara beðið um aðeins betri upplýsingar um það með hvaða hætti þessi ákvörðun var tekin. Við höfum bara beðið um það að þær hrókeringar sem voru framkvæmdar væru skýrðar þannig að við gætum með eðlilegum hætti tekið upplýsta afstöðu. Það er það eina sem við höfum farið fram á. En í staðinn stendur til einhverra hluta vegna að reyna að þrýsta þessu í gegn án þeirrar umræðu, án þess að þau rök séu komin fram með fullnægjandi hætti. Ef einhver vafi er á því að rökin séu næg, ef einhver vafi er á því að þetta sé gott ferli, ef einhver vafi er á því að það sé traust til dómstólsins í ljósi þess að þetta verði þá gert, þá verðum við að segja nei, þá verðum við öll að segja nei, eða alla vega vísa þessu máli frá, vegna þess að frávísun myndi í rauninni vera besta mögulega niðurstaða. Með því fáum við að taka (Forseti hringir.) málið aftur upp síðar og gera þetta almennilega og fá góð rök. Það er rétt niðurstaða. Vísum þessu frá, frú forseti. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)