147. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[11:21]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hennar sem hún flytur hér, ekki síst vegna góðrar þekkingar á fjárlögum og fjárlagafrumvarpi vegna setu hennar í fjárlaganefnd.

Það sem mér kemur í huga við lestur fjárlagafrumvarps, þessa frumvarps eins og annarra frumvarpa sem við höfum áður fjallað um, er kannski útgjaldaþungi frumvarpanna og útgjaldaþungi hins opinbera. Því langar mig að spyrja hv. þingmann sem gagnrýnir ráðstafanir, að ekki sé nógu mikið þarna og ekki nógu mikið hér. Hefur hv. þingmaður velt fyrir sér hvar við gætum skorið upp útgjöldin og reynt að spara í ríkisrekstrinum og reynt að feta okkur stigin þar til að ná hagkvæmari ríkisrekstri?