147. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[11:22]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég hef sagt það áður í þessari pontu að mér finnst útgjaldaþungi ríkisins í rauninni ekki vera slíkur ef við horfum til þess að samneyslan hefur dregist saman ár frá ári. Ég lít svo á að við þurfum að auka samneysluna en ekki að draga úr henni eins og gert hefur verið undanfarin mörg ár undir styrkri stjórn Sjálfstæðisflokksins. Ég tek því ekki undir það hjá hv. þingmanni að það sé eitthvert sérstakt vandamál. Það má alltaf gera betur í öllum rekstri, ég held að við getum verið sammála um það. Ég hef auðvitað ekki meiri innsýn í það en hv. þingmaður, hann hefur meira að segja kannski betri innsýn en ég hvað það varðar inn í einstaka stofnanir eða annað slíkt, við höfum auðvitað fengið þær til okkar og við verðum að bregðast við því sem þar kemur fram. Ég er heldur ekki að halda því fram að það eigi að segja já við öllu sem um er beðið, alls ekki. En þegar við tölum um grunnþjónustuna okkar, heilbrigðismálin, menntamálin, samgöngurnar, svo ég nefni nú bara þetta, þá verðum við að bæta betur í þar. Við verðum að gera betur þar vegna þess að í allt of mörg ár hefur verið úr of litlu að spila.

Þess vegna finnst mér sorglegt að horfa til þess og ég segi það líka þegar verið er að tala um og guma af 44 milljarða kr. afgangi sem ég ætla ekki að gera lítið úr, það er gott að eiga afgang. En er raunverulega hægt að tala um afgang þegar við erum með vanfjármagnaða innviði? Er hægt að tala um afgang þegar við erum með ónýta vegi? Erum við þá ekki að ýta einhverju bara inn í framtíðina sem við erum ekki að leysa núna? Er hægt að tala um afgang þegar fólk brennur upp í störfum í heilbrigðisþjónustunni, í kennslunni o.s.frv. vegna þess að það er ekki búið nægilega vel að því? Ég held ekki.

Við þurfum eflaust og getum eflaust skoðað einhverjar tilteknar stofnanir. En ég held að við þurfum að leggja betur til þessarar grunnþjónustu.