147. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[12:44]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar til þess að byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir mjög skelegga ræðu. Ég ætla að fá að spyrja um það síðasta sem hann nefndi í ræðu sinni. Einn ríkisstjórnarflokkurinn og sá sem hefur nú fjármálaráðuneytið undir sér, kom eiginlega út úr skápnum í gær sem, hvað á maður að segja, þriðju leiðar sósíaldemókratar sem eru með hægri efnahagsstefnu og vinstra velferðarkerfi. Nú kemur hv. þingmaður úr flokki sem kennir sig við sósíaldemókrata og hefur kannski aðeins dýpri þekkingu á þessum málum. Hvernig sér hann þessa hægri efnahagsstefnu í fjárlagafrumvarpinu? Hvar er vinstra velferðarkerfið?

Við horfum nú upp á hækkun á neyslusköttum; áfengis- og tóbaksskatti og bensínskatti, á sama tíma og verið er að hækka virðisaukaskatt, sem ég veit ekki hvort á að vera mótvægisaðgerð. Þá spyr ég: Er þá hægri efnahagsstefnan í raun og veru sú að einstaklingurinn á að borga fyrir allt, og kannski líka fyrir vinstra velferðarkerfið sem við viljum endilega byggja hér upp?