147. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[13:48]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Þorsteinn Víglundsson) (V) (andsvar):

Herra forseti. Hér er spurt stórra og áhugaverðra spurninga. Þegar kemur að tekjuaukningu ríkissjóðs með skattheimtu þá er það auðvitað ekki svo að hugmyndir minni hlutans um skattahækkanir snúi að því að auka afkomu ríkissjóðs, að auka afganginn af ríkissjóði, sem vissulega mætti alveg færa rök fyrir að gæti aukið aðhaldsstig ríkisfjármálanna á tímapunkti sem þessum. Þessum fjármunum yrði auðvitað eytt jafnharðan. Um það snúast tillögurnar, að ríkið taki stærri hluta af kökunni til sín til að eyða svo jafnharðan á nýjan leik, sem þýðir að aðhaldsáhrif slíkra skattahækkana yrðu engin og þýddu raunar einfaldlega að erfiðara yrði síðan að bregðast við niðursveiflu og samdrætti í tekjum ríkissjóðs og mikilvægi þess að draga saman að nýju í útgjöldunum.

Jöfnun eigna versus tekna er reyndar ansi stórt viðfangsefni. En við búum við mikinn tekjujöfnuð hér á landi. Það væri mjög áhugavert að fara inn í umræðuna um eignajöfnuð og hversu stór hluti af því ójafnvægi (Forseti hringir.) er einfaldlega bundinn við aldur okkar. Við söfnum eignum yfir aldursskeiðið. Ég hygg (Forseti hringir.) að það eigi nokkurn hlut í skýringu.