147. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[16:21]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég segi bara: Ég hlakka líka til samstarfsins. Það var ágætt hér á liðnu vori. Það gekk ágætlega þótt við séum ekki alltaf sammála, ég og hv. þingmaður, þó það nú væri. En ég ætla bara að benda á eitt. Ég veit að hv. þingmaður er mér sammála um að það er nauðsynlegt að við göngum rösklega til verks í að lækka skuldir ríkisins. Ríkissjóður hefur bundið 450 milljarða í fjármálakerfinu. Við höfum rætt það í hv. efnahags- og viðskiptanefnd og eigum eftir að glíma dálítið við það í vetur hvernig það getur verið skynsamlegt fyrir ríkið að losa um þá fjármuni, 450 milljarðar svona um það bil. Það er nú hægt að gera töluvert fyrir það. Lækka skuldir ríkisins og þar með vaxtabyrði ríkissjóðs og þar með lækka skatta, þá ekki síst tekjuskatta á þá sem lægstu launin hafa, og byggja upp almannatryggingakerfi. En þó kannski fyrst og fremst heilbrigðis- og menntakerfi til framtíðar.