147. löggjafarþing — 6. fundur,  26. sept. 2017.

dagskrártillaga.

[13:48]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Það er að sjálfsögðu rétt að við erum að leggja fram tillöguna eins og hún kemur frá frumvarpi stjórnlagaráðs, því að þjóðin hafði samþykkt hana, að þó undanskildu þessu ákvæði sem þýðir að þingið geti farið fram hjá þjóðinni því að það er ekki lýðræðislegt. Eins og við nefndum á fundinum í gær erum við að sjálfsögðu opin fyrir því að setja inn þröskulda, setja inn lýðræðislega þröskulda. Tillagan frá 2013 var ólýðræðisleg að mati Feneyjanefndarinnar og hún var tímabundin. Tillagan sem við erum að leggja fyrir þingið núna er lýðræðisleg og við erum tilbúin að setja lýðræðislega þröskulda þannig að þjóðin geti breytt til frambúðar, geti til frambúðar tekið þátt í að breyta stjórnarskrá sinni.

En horfið á hverju við stöndum frammi fyrir í dag. Ef við byrjum ekki í dag að breyta stjórnkerfinu hægt og örugglega, sem samþykkt þessarar tillögu þýðir að við getum gert, og við þurfum alltaf að bíða eftir kosningum, bíða og bíða og bíða, og hægt er að fresta þessu og fresta, stöndum við frammi fyrir því að væntingar landsmanna eru ekki uppfylltar, stöndum frammi fyrir því að ríkisstjórnir falla og springa, stöndum frammi fyrir pólitískum óstöðugleika. Það er það sem við stöndum frammi fyrir (Forseti hringir.) ef við förum ekki að breyta stjórnarskránni og stjórnkerfinu í samræmi við væntingar landsmanna. Þá munu ríkisstjórnir springa og falla. Það er ávísun á pólitískan óstöðugleika.