147. löggjafarþing — 6. fundur,  26. sept. 2017.

dagskrártillaga.

[14:06]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Frú forseti. Ég segi já, svo að við getum farið að tryggja aðkomu þjóðarinnar að breytingum strax eftir kosningar, að þjóðin eigi séns á að geta sjálf fengið aðkomu að stjórnarskrárbreytingum, að ef Alþingi samþykkir stjórnarskrárbreytingar sé þeim vísað í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þá getum við farið að breyta hlutum sem þarf að breyta. Þegar væntingar fólks breytast, eins og hefur gerst vegna upplýsingatæknibyltingarinnar, samfélagsmiðlanna, þá vill fólk fá að koma meira að málum sem það varða og í það minnsta fá upplýsingar um hvernig ákvarðanir eru teknar. Þetta er það sem sumarið snerist um. Fólk vildi fá að koma að ákvörðunum um sín mál, í það minnsta fá upplýsingar um hvernig ákvarðanir voru teknar. Við stöndum frammi fyrir því að ekki er hlustað á fólk nema það hafi hátt. Þá mun fólk bara halda áfram að hafa hátt ef við breytum ekki kerfinu. Þá munu ríkisstjórnir halda áfram að springa, falla. Það er ávísun á pólitískan óstöðugleika. Og svo kemur hrun, eins og hæstv. forsætisráðherra Bjarni Benediktsson er búinn að segja að líklegt sé að komi (Forseti hringir.) og flestir vita. Og í hruninu — hverjir munu þá komast til valda? Er kannski líklegt að þá komist til valda einhverjir popúlistar sem setja ekki borgararéttindi á oddinn eins og Píratar? Er líklegt að þá komist til valda fólk sem kollvarpar kerfinu? Við þurfum (Forseti hringir.) að fara í stjórnarskrárbreytingar sem fyrst. Þetta er tækifærið til þess.