147. löggjafarþing — 6. fundur,  26. sept. 2017.

útlendingar.

113. mál
[16:47]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S):

Virðulegur forseti. Það hefur verið með miklum ólíkindum að fylgjast með vinnslu þessa lagafrumvarps. Ef ég má leyfa mér að segja það þá hefur það verið þyngra en tárum taki fyrir embættismann eins og þann sem stendur hér sem ráðherra málaflokksins að fylgjast með undirbúningi þessa máls. Oft er talað um reykfyllt bakherbergi, hrossakaup, ákvarðanir teknar í samningum stjórnmálamanna sem standa frammi fyrir prófkjörsbaráttu eða kosningabaráttu. Oft eiga þessi ummæli við, oft er hægt að taka undir slíkt, en ég myndi segja sjaldan eins mikið og núna.

Þetta frumvarp í þeirri mynd sem það liggur núna fyrir og hefur verið kynnt hefur tekið gríðarlegum breytingum frá því að ég sem ráðherra málaflokksins fékk það sent til yfirlestrar og til ábendinga. Mörg sjónarmið hafa verið reifuð. Segja má flutningsmönnum þessa frumvarps til hróss að menn hafa þó játað að upphaflega var málið í þeirri mynd að ekki var hægt að bjóða upp á að það yrði afgreitt á einum degi. En allt að einu stöndum við frammi fyrir afgreiðslu á frumvarpi sem hefur þann tilgang einan að grípa inn í afgreiðslu tiltekinna umsókna um hæli frá tilteknu fólki til þess að tryggja að því er einhverjir segja jákvæða afgreiðslu fyrir það. Um það má reyndar deila að mínu mati hvort sú afgreiðsla verði í raun endilega jákvæð fyrir þetta fólk.

Ég vek athygli á því að greinargerðin með frumvarpinu sem nú er lagt fram með aðkomu forystumanna margra stjórnmálaflokka er mjög fáorð og segir í raun ekkert um raunverulegan tilgang eða markmið með frumvarpinu. Frumvarpið gengur út á og rennir stoðum undir málsmeðferð í stjórnsýslunni sem er ekki mér að skapi. Það gengur út á að tiltekin mál fái afgreiðslu í samræmi við geðþótta stjórnvalda úr því að ekki var hægt að koma vitinu fyrir ráðherrann sem hér stendur í þessu máli, þótt það hafi verið reynt og óskað eftir að ráðherra gripi með einhverjum hætti inn í afgreiðslu tiltekinna mála. Því er það lagt fyrir hv. þingmenn að bregðast við og margir hv. þingmenn hafa hér með látið undan þeim þrýstingi með þessu frumvarpi.

Ég vil aðeins fá að reifa stöðu hælisleitenda og þessa málaflokks á Íslandi í dag. Ég rifja upp að gerðar voru verulegar réttarbætur í þágu útlendinga almennt, ekki bara hælisleitenda eða kvótaflóttamanna heldur líka innflytjenda og útlendinga sem hér búa. Ég þreytist ekki á að minna á þá tugþúsundir útlendinga sem búa hér og starfa til lengri eða skemmri tíma á Íslandi og Íslendingar hafa ávallt tekið vel á móti og vilja áfram gera það.

Réttarbæturnar fólust m.a. í nýrri löggjöf um útlendinga sem var samþykkt hér, var samin reyndar af þverpólitískri nefnd, fulltrúum allra stjórnmálaflokka sem þá sátu á Alþingi, undir lok síðasta kjörtímabils. Réttarbætur hafa líka verið gerðar með reglugerðarbreytingum, með breytingum á þessum nýju útlendingalögum. Allt hefur þetta miðað að auknum málshraða og bættri málsmeðferð.

Á þessu ári hafa 824 mál verið afgreidd hjá Útlendingastofnun, þ.e. mál er lúta að umsóknum um hæli eða dvöl vegna mannúðarsjónarmiða. Þessi mál hafa verið afgreidd með margvíslegum hætti. 89 þessara umsækjenda hafa fengið vernd, afgangurinn ekki, en af ýmsum ástæðum. Sumir vegna þess að þeir hafa þegar fengið vernd í öðrum ríkjum og aðrir vegna þess að þeir bíða afgreiðslu annars staðar í Evrópu, í Evrópusambandslöndum.

Málsmeðferðartími hefur styst verulega á þessu ári. Árið 2016 tók það að meðaltali 8,6 mánuði að afgreiða svokölluð Dyflinnarmál. Á þessu ári hefur málsmeðferðartíminn farið niður í sex og hálfan mánuð. Þau mál sem hafa fengið efnismeðferð eru að jafnaði afgreidd á tólf og hálfum mánuði. En þar þurfa menn líka að hafa í huga að málsmeðferðarhraðinn tekur einnig mið af Dyflinnarreglugerðinni margumræddu. Þar er kveðið á um lögbundna fresti. En það er í farvatninu á vettvangi Schengen-ríkjanna að stytta þann málsmeðferðartíma verulega. Því fagna held ég allir, ekki síst hælisleitendur.

Ég vil líka nefna það að ég boðaði við stefnuræðu forsætisráðherra verulegt samráð við alla flokka sem sitja á þingi um þennan málaflokk. Ég boðaði samráð sem myndi leiða til þess að menn fylgdu enn frekar úr hlaði nýju útlendingalögunum og ef tilefni væri til væri líka samráð um breytingar á lögunum.

Virðulegur forseti. Ég velti fyrir mér hagsmuni hverra sé verið að vernda með frumvarpinu. Það liggur fyrir að afleiðingin, ef þetta frumvarp nær fram að ganga, yrði sú að fleiri hælisleitendur sem hingað leita yrðu sendir til síns heimaríkis í stað þess ríkis sem þeir koma frá. Ísland nýtur þeirrar stöðu, legu sinnar vegna, að mjög fáir hælisleitendur koma hingað beint frá átakasvæðum heldur frá löndum sem hafa að mörgu leyti sérhæft sig í móttöku þeirra. Með því að taka mál þessara hælisleitenda til efnismeðferðar eins og hér er verið að kalla eftir, mál sem ella myndu bara bíða afgreiðslu t.d. í ríkjum á borð við Þýskaland eða Svíþjóð, liggur fyrir að niðurstaða slíkra mála gæti verið sú að menn yrðu sendir til síns heimaríkis. Það væri búið að svipta þá hælisleitendur þeim möguleika að ljúka sinni efnismeðferð t.d. í Þýskalandi. Það lægi líka fyrir að mögulega fengju fleiri vernd.

Ég er auðvitað þeirrar skoðunar að Ísland sé best í heimi. Ég trúi því að þeir sem sitja í þessum sal séu þeirrar skoðunar líka. En það er ekki víst að hagsmunum alls þessa fólks sé best borgið hér á landi. Ísland er ekki best í heimi fyrir margt af þessu fólki. Hingað leitar fólk sem er í allskyns vanda og þarf að fá þvílíka faglega þjónustu að fyrir liggur að hún er ekki einu sinni til hér á landi. Þetta held ég að menn þurfi að hafa í huga þegar þeir ræða þessi mál. Þetta er ekki spurning um krónur og aura. Nú ætla ég ekki að taka þá umræðu, ég ætla ekki að ræða það hér. Ég bendi hins vegar á að hér er verulegur skortur og verður varanlegur skortur á tiltekinni faglegri þjónustu sem margt af þessu fólki sem hingað leitar þarf svo sannarlega á að halda.

Ég vil nefna að lokum að frumvarpið er, fyrir utan efni þess, líka gallað að formi til. Texti t.d. í greinargerð er ekki í nokkru samræmi við veruleikann. Það má segja um textann í greinargerð að hljóð og mynd fari ekki saman. Þar er gefinn einhvers konar ádráttur um tiltekna afgreiðslu sem stenst síðan ekki lagatextann þótt frumvarpið næði fram að ganga. Þetta er algerlega vanhugsuð útfærsla á lagatexta og framkvæmdinni. Ég bendi t.d. á texta í greinargerðinni þar sem segir að áréttaður sé „sá vilji löggjafans að ávallt skuli taka til efnislegrar meðferðar umsóknir um alþjóðlega vernd ef umsækjandi er í sérstaklega viðkvæmri stöðu“. Þessi texti er í ekki nokkru einasta samræmi við löggjafarviljann eins og hann var þegar útlendingalögin voru í samþykkt og ekki í nokkru einasta samræmi við þá framkvæmd sem hefur verið við lýði við afgreiðslu þessara mála. Það var aldrei vilji til þess að taka alltaf allar umsóknir til efnismeðferðar. Það segir sig alveg sjálft að langflestir þeir sem hingað leita með hælisumsókn eru í einhverri viðkvæmri stöðu. Að halda því fram að löggjafinn hafi á síðasta kjörtímabili ætlast til þess að allar slíkar umsóknir yrðu teknar til efnislegrar meðferðar þrátt fyrir samstarf okkar á vettvangi Schengen-ríkjanna með til að mynda Dyflinnarreglugerðinni er af og frá, það er af og frá að þessi framsetning og þessi málflutningur standist nokkra skoðun. Ef þetta ætti að vera til umfjöllunar hér eða þetta ætti að vera ný framkvæmd við afgreiðslu mála þyrfti það verulegrar umræðu við á Alþingi með aðkomu allra þeirra sem starfa í þessum málum, mannúðarstofnana, lögreglu, fagaðila hjá Útlendingastofnun og kærunefnd og þar fram eftir götunum. Heilbrigðisyfirvalda líka. Afgreiðsla á þessu máli með vísan til þessarar framkvæmdar getur ekki verið með þeim hætti sem hér stefnir í. Ég veit að hv. þingmenn eru tilbúnir til að vippa sér í hin og þessi mál, vippa sér í stjórnarskrárbreytingar. Þetta mál er ekki þannig að menn geti bara vippað sér í það. Breyting eins og hér er kveðið á um eða eins og ég held að frumvarpshöfundar túlki þetta frumvarp kallar á miklu vandaðri meðferð en þetta.

Virðulegur forseti. Ég vil nefna að það er mín skoðun og hefur verið að afgreiðsla hælisumsókna verði að byggja á gagnsærri löggjöf. Hún verður að byggja á jafnræði og á því markmiði, því aðalmarkmiði, að tryggja þeim sem mest þurfa á að halda skjól. Verði um forgangsröðun í þeim efnum að ræða verður sú forgangsröðun að byggja á neyð og á einhverri staðreynd um hverjir það eru sem eru að flýja mestu neyðina. Þetta frumvarp er langt í burtu, svo langt frá þessum sjónarmiðum, þvert á móti er hér verið að grípa inn í einstaka afgreiðslu fagaðila, grípa inn í mál sem hafa fengið ekki bara eina málsmeðferð, ekki bara tvær heldur þrjár meðferðir á stjórnsýslustigi. Það er hreinlega verið að segja að þessir fagaðilar hafi ekki staðið sig. Samt er ekkert sem liggur fyrir í greinargerðinni, engin vísbending um að nokkur könnun á þessu máli hafi farið fram.

Það er mjög óheillavænleg þróun að mínu mati nái þetta frumvarp fram að ganga (Forseti hringir.) og er ekki nokkrum hælisleitanda sem hingað leitar í framtíðinni til bóta.