147. löggjafarþing — 6. fundur,  26. sept. 2017.

útlendingar.

113. mál
[17:17]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að gera smáathugasemd við orð starfandi dómsmálaráðherra en hún sagði í ræðu sinni áðan „að vippa sér í stjórnarskrárbreytingar“. Nú er það svo að ég giska á að verið sé að vísa í dagskrárbreytingartillögu Pírata og Samfylkingar um að taka breytingarákvæði stjórnarskrárinnar á dagskrá. Tilraun til þess er að endurvekja mjög sambærilegt ákvæði og rann út í apríl síðastliðnum. Það er nú öll kollsteypan þar í; að virkja aftur ákvæði sem þegar hefur verið í stjórnarskrá. Heimurinn fórst ekki á meðan það ákvæði var virkt.

Það er sambærilegt á þann hátt að leiðrétta þarf smávægilega ólýðræðislega galla á því ákvæði, t.d. samkvæmt áliti Feneyjanefndar. Það á ekki að vera það flókið. Það er enn mánuður í kosningar, fullt af tíma til að ræða þetta mál og fá fram vilja þingsins, en þingið virðist ekki vera tilbúið í það.

Mig langaði bara til að inna ráðherra eftir þessum orðum: „að vippa sér“ í stjórnarskrárbreytingar; leiðrétta þau ef þau eiga við um þessa dagskrárbreytingu Pírata og spyrja hvort það sé þá rétt ágiskun hjá mér að starfandi dómsmálaráðherra hafi átt við um það mál.