147. löggjafarþing — 6. fundur,  26. sept. 2017.

útlendingar.

113. mál
[17:34]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa þetta mjög langt. Hv. þm. Katrín Jakobsdóttir fór mjög vel yfir frumvarpið og málið. Hv. þm. Birgitta Jónsdóttir hélt mjög góða og innihaldsríka ræðu sem tók nokkuð vel á þessum hlutum. Hún nefnir auðvitað grundvallaratriðið þegar kemur að þessum hlutum, sem er mannúð og ábyrgð. Hún nefnir líka hversu ríkan efnahagslegan hag þetta litla land, þessi fámenna þjóð í stóru landi, hefur af því að fá inn nýja einstaklinga, nýja íbúa. Og síðast en ekki síst kemur hún inn á þá döpru staðreynd að stjórnmálaflokkar, stjórnmálamenn, ætla að slá sig til riddara og reyna að næra umræðu sem snýst um að einn aðili sem á bágt sé endilega á kostnað annars sem á bágt. Það er ekki bara ógeðfellt, það er líka rangt.

Þess vegna vona ég að í framhaldinu og eftir að við höfum afgreitt þetta mál snúi fjölmiðlar sér að öllum þeim frambjóðendum sem hafa raunverulega möguleika á að ná þingsæti eftir næstu kosningar og spyrji þá hreint út: Hver eru ykkar viðbrögð í þessum málum? Munuð þið koma að vinnu við breytingu útlendingalaga sem miða að því að sýna meiri mannúð eða ætlið þið að reisa víggirðingar um Ísland og segja: Þetta er hættulegt menningu okkar, hættulegt efnahag okkar, og næra hræðslu fólks í kosningabaráttunni?

Við erum að ræða mál sem er okkur auðvitað kærast af öllu, sem allt lífið snýst í raun um, börn. Við erum ekki að tala um börn sem búa við þann aðbúnað sem við hér inni getum veitt þeim, eða flestir Íslendingar. Við erum að ræða um börn sem koma úr aðstæðum sem enginn ætti að upplifa og sem fæst okkar, sem betur fer, gera sér grein fyrir hvernig eru.

Í þingbyrjun lagði ég fram frumvarp um að veita tveimur stúlkum og fjölskyldum þeirra ríkisborgararétt. Fyrir það var ég gagnrýndur af ýmsum. Það var kallað lýðskrum. Ég vísa því beint til föðurhúsanna því að um var að ræða neyðarviðbrögð. Þótt frumvarpið sem slíkt tæki aðeins til nokkurra einstaklinga með beinum hætti var því ekki síður ætlað að senda yfirvöldum útlendingamála skýr skilaboð um til hvers löggjafinn ætlaðist. Að réttindi barna væru virt í hvívetna við töku stjórnvaldsákvarðana þar sem hagsmunir þeirra væru í húfi.

Hér hefur komið fram í ræðum nokkurra hv. þingmanna hver vilji Alþingis var þegar útlendingalögin voru samþykkt og að það hefðu verið þeim nokkur vonbrigði að sjá að þau skilaboð hafi ekki fyllilega skilist. Þá hefur Alþingi ekki nema eitt úrræði, að tala skýrar. Það er það sem er verið að gera. Ákall hæstv. dómsmálaráðherra um samvinnu allra flokka um að breyta útlendingalögunum núna á þingvetrinum, sem hún nefndi vissulega í stefnuræðunni og var gott, á sér uppruna í þessu máli, því að í þingmálaskránni sem hún dreifði nokkrum dögum áður en stefnuræðan var flutt er ekkert um þetta. En það er gott. Ráðherra hefur þá brugðist við aðstæðum. Það sýnir að það var nauðsyn að setja þetta mál á dagskrá.

Hitt er svo aftur annað mál að ekki var samstaða meðal þingflokka endilega um það. Þótt Samfylking, Píratar og Vinstri græn væru á málinu þótti mörgum þingflokkum betra að fara aðrar leiðir, þ.e. að breyta frekar útlendingalögunum og trygga betur réttindi og gera það með almennum hætti þar sem byggt er á gagnsæi og jafnræði. Ég get alveg tekið undir þau sjónarmið. Það er auðvitað alltaf best. En við þessi knöppu tímamörk tókst það ekki. Í stað þess er farin sú leið að leggja til breytingar til bráðabirgða sem munu vonandi tryggja nokkrum börnum að auki öryggi þar til nýtt þing kemur saman sem vonandi verður skipað öflum sem byggja á mannréttindum og mannúð.

Herra forseti. Ég hef þó áhyggjur af þessu frumvarpi og beini til velferðarnefndar að fara mjög vel yfir það og girða fyrir að ekki stafi nein hætta fyrir þá sem lögin ná til. Hæstv. ráðherra spurði áðan: Hvað með börnin sem koma á morgun eða hinn daginn? Ja, við nokkur hér inni, nokkrir þingflokkar, höfum þó alla vega gefið skýr skilaboð um að við viljum breyta þessu eftir kosningar. Hún vill þá væntanlega að þau gangi inn í það umhverfi sem er í dag og finnst það fullnægjandi. Það er ekki boðlegt að mínu viti.

Þess vegna er mjög brýnt að til þingstarfa veljist flokkar sem byggja á þeirri mannúð sem ég talaði um. Það er óheppilegt að öryggi barna sé orðið að þrætuepli stjórnmála eða skiptimynt í viðræðum, eða alla vega hótun um skiptimynt í viðræðum. Því að ég veit auðvitað innst inni að það hefur enginn áhuga á að tefla lífi barna í hættu. Ég vona alla vega ekki.

En ég held að við ættum að lokum að muna að sennilega er framkoma okkar við börn kannski skýrasti mælikvarðinn sem við eigum á hvers konar samfélag við erum þrátt fyrir allt. Með þeim orðum lýsi ég því yfir að ég styð þetta frumvarp og vona að það gangi greiðlega og örugglega í gegn og að við komum sem flest saman eftir kosningar og gerum þær úrbætur sem nauðsynlegar eru.