148. löggjafarþing — 2. fundur,  14. des. 2017.

stefnuræða forsætisráðherra og umræður um hana.

[20:13]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Hæstv. forseti. Góðir Íslendingar. Nýtt þing og nýtt kjörtímabil er á ákveðinn máta eins og áramót stjórnmálanna. Þetta er nýtt upphaf, ný andlit á þingi og að þessu sinni einnig nýir flokkar. Það er ástæða til þess að óska nýju flokkunum til hamingju með þann árangur sem þeir hafa náð hér í nýafstöðnum kosningum jafnvel þótt ekki sé hér tækifæri til þess að rekja alla söguskýringuna hjá síðasta ræðumanni, sem var nú nokkuð kostuleg. Margt af því sem ég heyrði þar um aðdraganda þess að kosið var hér á árinu 2016 er ég að heyra í fyrsta skipti.

Í nýafstöðnum kosningum höfðum við öll væntingar, væntingar um að hlutir yrðu mögulega öðruvísi í framtíðinni, að samstarfið hér á þingi gæti mögulega orðið betra og útkoman árangursríkari fyrir landsmenn. Kosningarnar eru að baki.

Það er erfitt að segja að niðurstaða kosninganna hafi verið alveg skýr. Flestir voru sammála um að þegar talið hafði verið upp úr kössunum væri ekkert sjálfgefið varðandi framhaldið, enginn einn augljós kostur. Þess vegna væri niðurstaðan sú að til þess að mynda sterka stjórn þyrftu þeir flokkar sem kæmu að ríkisstjórnarsamstarfinu, á hvern veg sem það yrði, að leggja sitt af mörkum, fórna einhverju til þess að mynda slíka stjórn fyrir landið.

Í þessu nýja ríkisstjórnarsamstarfi hafa línurnar verið lagðar í stjórnarsáttmála þar sem áhersla er lögð á brýn verkefni sem við getum sameinast um og farvegur fundinn fyrir mál sem leita þarf breiðrar samstöðu um. Einhver mundi jafnvel kalla það róttæka skynsemishyggju.

Í stjórnarsáttmálanum kemur einnig fram skýr stefna um að þessi ríkisstjórn vilji treysta til framtíðar samfélagslegan stöðugleika, velsæld og lífsgæði. Markmið okkar er að gefa öllum hlut í yfirstandandi hagvaxtarskeiði. Að allir njóti þess efnahagslega árangurs sem hér hefur náðst og er fram undan. Það er inntak fjárlagafrumvarpsins fyrir 2018 sem lagt var fram í dag. Ég ætla svo sem ekki að fara að tíunda hér efni þess enda fyrsta umræða um það mál á dagskrá þingsins á morgun.

Þó vil ég nefna að í þessu fyrsta fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar birtist með skýrum hætti hverjar áherslurnar eru í heilbrigðismálum, í menntamálum og á sviði samgangna, svo fátt eitt sé nefnt. Mig langar einnig til að velta upp stóru myndinni í ríkisfjármálunum, kannski ekki milljörðunum og milljónunum, einstaka málefnasviðum, heldur meira næstum á tilvistarlegum nótum. Hvers vegna eru ákvarðanir um ráðstöfun fjármuna og forgangsröðun í ríkisfjármálum sérstakar? Hvers vegna gerum við það sem við gerum á þingi? Og jafnvel tengt því; hvers vegna erum við í stjórnmálum? Ég er alveg viss um að margir í þessum sal hafa oft fengið þá spurningu og án vafa hafa margir farið yfir það með sjálfum sér þegar þeir gáfu kost á sér til þátttöku í stjórnmálunum hvers vegna þeir gerðu það, hvers vegna þeir vildu leggja stjórnmálin fyrir sig. Jafnvel þótt spurningunni verði ekki svarað með sama hætti fyrir alla sem gefa sig að stjórnmálum þá sameinar það okkur, tel ég, að vilja láta gott af okkur leiða. Ég tel að við viljum öll skila góðu verki fyrir landið. Til þess að svo megi verða þarf að vera vilji til að leita lausna, finna leiðir fram á við til að allir geti bætt hag sinn sem mest. Þar liggur kannski hluti svarsins.

Meðal þess sem gerir störfin á Alþingi sérstök er sú aðferð sem við höfum til að komast að niðurstöðu, til þess að leiða fram niðurstöðu í einstökum málum. Samtalið sem hér fer fram, ekki bara milli þeirra sem valist hafa til þátttöku á þinginu, heldur líka við samfélagið með samráði. Ætli megi ekki segja það þrátt fyrir allt um flesta ef ekki alla þingmenn sem starfað hafa hér á þingi, að okkur finnst jafnan að breytingar sem við viljum beita okkur fyrir gerist of hægt. Þegar öllu er á botninn hvolft skiptir það líklega ekki mestu hversu hratt breytingarnar gerast, heldur hitt hvort okkur miðar sem samfélagi fram veginn. Sígandi lukka er best.

Þegar horft er til baka má án alls vafa finna í Alþingistíðindum síðasta áratugar eða svo endalausar ræður þar sem því er haldið fram fullum fetum að hér sé allt vitlaust gert og okkur miði ekkert áfram. En þrátt fyrir allar slíkar ræður er staðan samt sem áður sú í dag að við lifum lengsta hagvaxtarskeið seinni tíma sem er betra jafnvægi í efnahagsmálum en átt hefur við í áratugi. Verðbólga er lítil, atvinnuleysi sömuleiðis og kaupmáttur heimilanna hefur aldrei verið meiri. Okkur er sem sagt að takast að styrkja innviðina. Við höldum því áfram af krafti í því fjárlagafrumvarpi sem lagt var fram í dag.

Eftir jafn óvenjuleg ár og við höfum lifað síðasta áratuginn eða svo verður jafnvægi, ró og friður enn eftirsóknarverðari. Við höfum á áratug gengið í gegnum það sem við töldum vera mesta góðæri lýðveldistímans og svo eina dýpstu kreppu strax í kjölfarið. Og nú lítur út fyrir að við sitjum á toppi þeirrar hagsveiflu sem nú ríkir. Gangi spár eftir fáum við mjúka lendingu í framhaldi af þessum mikla vexti á næstu árum. Það hefur því margt fallið með okkur hin síðari ár. Þótt það þurfi sterk bein til að þola mótlæti og erfiðleika reynir líka á í meðbyr að vera skynsöm, að vera framsýn, að nýta það hlé sem byggir upp. Sækja fram og sækja á ný mið. Það gerist ekki af sjálfu sér. En við þurfum að sækja á ný mið og því er sterkur nýsköpunarhljómur í stefnuyfirlýsingunni. Það hefur verið sérstaklega ánægjulegt að finna stuðning frá fólki úr nýsköpunargeiranum við það sem sagt er um þau efni í stjórnarsáttmálanum.

Það er hluti af því að njóta velsældar að geta fengist við það sem er manni hugleikið. Að byggja upp samkeppnishæft fjölbreytt og spennandi atvinnulíf á Íslandi er mikilvægur þáttur í því að halda í öflugt starfsfólk og laða til okkar fólk sem getur orðið fyrirtækjum innspýting.

Það sem einkennir ríkisfjármálin um þessar mundir er mjög góð afkoma þegar horft er til frumgjalda og tekna, en á móti kemur þung vaxtabyrði sem dregur úr getu okkar til að skila tekjum til uppbyggingar samfélagsins. En við erum á réttri leið. Skuldahlutföll hafa lækkað ört og sá efnahagslegi árangur sem náðst hefur undanfarin ár er farinn að skila sér í mun betri lánakjörum. Við sjáum það t.d. bara í vikunni sem er að líða þar sem okkur buðust bestu lánakjör á erlendum mörkuðum sem okkur hafa nokkru sinni boðist.

Horfur eru almennt góðar. Ferðamönnum mun fjölga verulega á næsta ári, gangi spár eftir. Ástand fiskstofna er með því besta sem við höfum séð undanfarin 20 ár og viðskipti við umheiminn eru í góðu jafnvægi. Það er sú staða sem nýtt þing hefur til þess að vinna með til að láta gott af sér leiða áfram.

Stundum er sagt að ekkert fyrirtæki myndi gera hlutina eins og ríkið. Vissulega mætti ríkið læra margt af vel reknum fyrirtækjum. En við erum ekki að reka fyrirtæki. Við erum að hlúa að samfélagi. Samfélagi fólks sem á margt sameiginlegt en hefur misjafnar þarfir, óskir og væntingar. Það er okkar hlutverk að mæta þeim væntingum sem best við getum. Að gefa öllum jöfn tækifæri og jafnan aðgang að þeim gæðum sem samfélagið hefur að bjóða.

Velsæld og lífsgæði eru leiðarstef í ákvörðunum ríkisstjórnarinnar og þeim tillögum sem við leggjum fyrir Alþingi. Í orðabók er velsæld samheiti hamingju, velferðar, farsældar og velgengni. Við óskum íslenskri þjóð alls þessa og meira til.