148. löggjafarþing — 2. fundur,  14. des. 2017.

stefnuræða forsætisráðherra og umræður um hana.

[21:56]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Kæru landsmenn. Ég óska nýkjörnum þingmönnum til hamingju með sætið og hlakka til samstarfsins við þá og ykkur öll. Væntingar til ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur eru miklar og sjálfur hef ég mikla trú á samstarfi flokkanna. Ég ber þá von í brjósti að ríkisstjórnin og Alþingi muni standa undir þeim væntingum sem þjóðin hefur og að góð staða í efnahagsmálum skili sér til samfélagsins alls og þá fyrst til þeirra sem veikast standa. Undirstaða velferðar og svigrúms til bættra kjara er öflugt atvinnulíf um land allt, stöðugleiki í efnahagsmálum, friður á vinnumarkaði og stöðugleiki í stjórnmálum.

Eitt af mikilvægustu verkefnum Alþingis er að deila fjármunum ríkisins til lögbundinna verkefna um land allt. Þar er jafnræðið mikilvægur þáttur og allir landsmenn eiga að sitja við sama borð.

Í tölulegum samanburði í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2014, sem Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum lét gera, kemur fram verulegur munur á framlögum ríkisins til stofnana á Suðurnesjum og á öðrum stöðum á landinu. Þar kemur fram að starfsemi Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja fær 40% framlag á hvern íbúa miðað við Heilbrigðisstofnun Austurlands og lægst framlag af þeim stofnunum sem eru í nálægð við höfuðborgina, eða 43% af því sem Heilbrigðisstofnun Vesturlands fær. Þegar kemur að fjölda hjúkrunarrýma er heilbrigðisumdæmi Suðurnesja með fæst rými, eða 5,4 rými, en landsmeðaltal er 7,4 rými á hverja þúsund íbúa.

Í samantekt sem Aton vann um fjárframlög til stofnana á Suðurnesjum í ár sést að fjárframlög þangað eru enn víða lægst og hafa ekki á nokkurn hátt náð að fylgja eftir fordæmalausri fjölgun íbúa á Suðurnesjum sem er 16% á árunum 2010–2017. Markmið ríkisstjórnarinnar, um að hagsældin skili sér til samfélagsins alls, á líka við um Suðurnes.

Kæru landsmenn. Eitt af meginmarkmiðum ríkisstjórnarinnar er uppbygging heilbrigðiskerfisins. Heilbrigðisstofnanir um land allt eru hluti af þeirri uppbyggingu sem kallar á aukið fjármagn til reksturs sjúkrahúsa, sjúkraflutninga og tækjakaupa. Landspítalinn er mikilvægasta stofnunin en hún er ekki allt heilbrigðiskerfið. Heilbrigðisstofnanir á landsbyggðinni eru grunnstoðir hvers samfélags og við ætlum að standa vörð um þær.

Meðferðarstofnanir eru hluti heilbrigðiskerfisins í landinu. Þar eru líka unnin kraftaverk á hverjum degi, á Vogi, Hlaðgerðarkoti og í Krýsuvík. Það er skylda okkar sem hér sitjum að styrkja stoðir þessara stofnana.

Það mun ekki fara fram hjá neinum að heilbrigðismál eru í forgangi hjá ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur. Ætlunin er að styrkja meðferðarstofnanir og gera stórátak í geðheilbrigðismálum. Á komandi ári verða niðurgreiðslur á tannlæknakostnaði eldri borgara og öryrkja auknar, og sérstök innspýting í heilsugæslu um land allt.

Virðulegi forseti, kæru landsmenn. Í stuttri ræðu er aðeins minnst á brot þeirra góðu markmiða ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur um að aukin hagsæld skili sér í ríkara mæli til samfélagsins alls. Þessi sýn fær byr undir báða vængi hvarvetna í samfélaginu. — Ég óska ykkur öllum gleðilegra jóla.