148. löggjafarþing — 3. fundur,  15. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[11:12]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Já, ég trúi því reyndar að breyting á fjármálastefnu hafi veruleg áhrif. Það hefur sýnt sig í gegnum árin og áratugina að það er einmitt á þessum tímum sem hvað erfiðast er að hafa taumhald á ríkisfjármálunum. Því er einfaldlega eytt sem er aflað. Það er aldrei hugsað til lengri tíma litið.

Það leiðir reyndar hugann að öðru sem hefur breyst verulega í umræðu hér í þinginu á aðeins einu ári. Í umræðu um fjárlög fyrir ári var þingheimur meira og minna allur sammála því að einskiptistekjur ríkissjóðs skyldi nýta til að greiða niður skuldir. Ég held að það sé gríðarlega mikilvægt, þegar við horfum á sveiflukennt íslenskt hagkerfi, að við tökum myndarlega á skuldastöðu ríkissjóðs einmitt á þessum tímapunkti þegar við erum á hápunkti hagsveiflunnar. Það verður miklu erfiðara að bera 70 milljarða vaxtakostnað þegar kreppir að og viðhalda óbreyttu stigi samneyslunnar á sama tíma.

Mig langar því að spyrja hæstv. fjármálaráðherra: Þegar horft er til yfirlýsinga forsvarsmanna nýrrar ríkisstjórnar og stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar kveður skyndilega við annan tón þegar kemur að þessum einskiptistekjum ríkisins. Þær er skyndilega hægt að fara að nýta til að fjármagna ýmiss konar útgjöld ríkisins, það á ekki að greiða skuldir niður með þeim heldur fjármagna það sem kallað eru einskiptisverkefni í innviðauppbyggingu. Ég hef aldrei upplifað að dregið hafi úr innviðauppbyggingu hér á landi í gegnum árin. Kröfurnar vaxa einfaldlega með árangri okkar á því sviði. Mig langar að spyrja hæstv. fjármálaráðherra: Hvað er í fyrsta lagi átt við með þessum einskiptisútgjöldum og hvernig er það rökstutt? Og hvað skýrir sinnaskipti þegar kemur að nýtingu einskiptistekna í rekstrarkostnað ríkisins í stað þess að greiða niður skuldir og draga úr vaxtakostnaði?

Það er ágætt að hafa í huga að með því er verið að varpa ábyrgðinni á fjármögnun samneyslunnar yfir á framtíðina.