148. löggjafarþing — 3. fundur,  15. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[13:59]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni greinargóða ræðu og þakka fyrir spurningarnar sem ég mun bregðast við í þessu andsvari við hann. Spurningarnar voru stórar og lúta að heildarsýn sem mér finnst afar mikilvægt að við ræðum hér. Vonandi fáum við tækifæri til að ræða hana við fleiri umræður í þinginu því að það er sannarlega rétt ábending hjá honum að við leysum vandamál heilbrigðiskerfisins ekki einungis með auknum útgjöldum.

Ég er sammála landlækni hvað það varðar. Enda kemur fram í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarflokkanna, og ég tel að það séu nú ekki bara ríkisstjórnarflokkarnir sem séu sammála um það heldur stjórnmálin almennt, að löngu tímabært sé að greina einstaka þætti heilbrigðiskerfisins, hvert sé hlutverk þeirra og síðan samspil þeirra þátta. Það er alveg ljóst að í íslenska heilbrigðiskerfinu, sem er þó mjög gott og sterkt kerfi, er um að ræða töluverða skörun á verkefnum, tvíverknað einhvers staðar og líka eyður. Við erum alveg örugglega ekki að ráðstafa því fé sem við höfum milli handanna eins og best yrði á kosið.

Hins vegar er það svo að útgjöld til heilbrigðismála miðað við höfðatölu, þ.e. miðað við verga landsframleiðslu, eru á Íslandi undir meðaltali OECD-ríkjanna, eða hafa verið það. Meðaltalið fyrir árið 2016 er 9%. Mér finnst að við eigum að velta því fyrir okkur hversu hátt þetta hlutfall eigi að vera. Undirskriftasöfnun Kára Stefánssonar gerði ráð fyrir 11%. Hins vegar, ef hv. þingmaður myndi vilja reifa það með mér líka, mætti líka spyrja hversu há, með eðlilegum hætti, (Forseti hringir.) kostnaðarhlutdeild eða -þátttaka sjúklinga ætti að vera í góðu heilbrigðiskerfi.