148. löggjafarþing — 3. fundur,  15. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[14:05]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra greinargóð svör. Ég ítreka að ég tel það eitt af mikilvægustu verkefnum okkar í þinginu, bæði minni hluta og meiri hluta, á komandi árum að bæta skilvirkni heilbrigðiskerfisins. Það er alveg ljóst að við erum með miklar áskoranir í heilbrigðismálum á komandi árum. Þjóðin er að eldast. Því fylgir mikill kostnaður. Kröfur aukast, tækni fleygir fram, lyf verða fullkomnari en dýrari um leið. Það er alveg ljóst að í raun eru engin endimörk á þeim fjárkröfum sem kerfið mun gera. Ég held að það muni eingöngu afmarkast af því sem við getum gert. Þess vegna skiptir gríðarmiklu máli að við hugsum líka með skilvirkum og markvissum hætti til þess hvernig við getum gert kerfið betra og skilvirkara þannig að það þjóni fólkinu betur en kosti um leið ríkissjóð ekki jafnmikið og það ella myndi gera.