148. löggjafarþing — 3. fundur,  15. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[14:30]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Á bls. 132 er talað um áherslumál nýrrar ríkisstjórnar, ríflega 12 milljarðar kr. sem eru útskýrðir sem umframfjárhæð frá ramma fjármálaáætlunar. En á sama stað er talað um 13,6 milljarða sem eru samkvæmt breyttum fjármálaheimildum vegna nokkurra útgjaldamála sem ekki lágu fyrir við vinnslu fjármálaáætlunar. Ég skil ekki alveg þessar upphæðir.

Af hverju er farið fram úr ramma fjármálaáætlunar ef það er ekki einfaldlega reikningsatriði þar sem hitt og þetta kostaði eðlilega meira en gert var ráð fyrir af einhverjum ástæðum, sem er þá útskýrt, eins og að laun komu inn, hækkun kjarasamninga eða eitthvað svoleiðis? Þá hækkar það bara sem búið var að samþykkja áður.

Hins vegar eru áherslumál nýrrar ríkisstjórnar. Ríkisstjórnin leggur fram fjármálafrumvarp sem ekki er í takt við samþykkta fjármálaáætlun á Alþingi. Hún fer ekki eftir fyrirmælum Alþingis.

Ég velti fyrir mér hvort við getum haft umræðuna og útskýringarnar aðeins skýrari: Hvað er verið að uppreikna sem fer út fyrir ramma fjármálaáætlunar og hver er viðbót ríkisstjórnarinnar sem fer umfram rammann?