148. löggjafarþing — 3. fundur,  15. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[15:07]
Horfa

Halldóra Mogensen (P) (andsvar):

Herra forseti. Mig langar til að byrja á að segja að ég er mjög ánægð með hæstv. nýjan heilbrigðisráðherra og býst við góðum hlutum frá henni. Spurning mín er tvíþætt. Mig langar til að spyrja hver staða Landspítalans sé í ár. Lítur út fyrir að hann komi út í mínus eða fyrir ofan núllið? Svo langar mig til að spyrja út í viðbrögð forstjóra Landspítalans. Hann lýsti því yfir í fjölmiðlum að fjárlagafrumvarpið væri vonbrigði og taldi Landspítalann þurfa 600 milljónir til viðbótar í reksturinn til þess eins að halda sjó. Án þessarar upphæðar telur hann sig ekki geta ráðið nauðsynlegt starfsfólk áfram í vinnu og segir að þessi upphæð sé engin stórsókn heldur einungis til að halda rekstrinum á floti.

Ég spyr hæstv. ráðherra: Hvað kemur til að Landspítalinn fær ekki það fjármagn sem þörf er á til að halda rekstrinum á floti? Telur ráðherra forstjóra Landspítalans vera að reikna dæmið eitthvað vitlaust eða er það bara ekki forgangsatriði nýrrar ríkisstjórnar að standa vörð um opinbert heilbrigðiskerfi?