148. löggjafarþing — 3. fundur,  15. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[17:48]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það hefur nú þegar verið forgangsraðað í þá átt að reyna að vinna á innleiðingarhallanum en það er minnst af því í utanríkisráðuneytinu. Það er í öðrum ráðuneytum. Það væri mjög sérkennilegt ef fjármunir væru veittir til utanríkisráðuneytisins til þess að vinna á þeim halla. Það er að mestu leyti í fagráðuneytunum.

Varðandi EES-samninginn þá er það eitt af því sem lagt er upp með og munu koma tillögur um, vegna þess að það skiptir máli, ekki bara að taka á innleiðingunum heldur líka að reyna að hafa áhrif á það sem snýr að okkar hagsmunum. Það hefur verið gert með því að setja upp EES-gagnagrunninn sem verður vonandi fyrr en seinna aðgengilegur almenningi en nú þegar er byrjað að nota hann. Sömuleiðis hef ég í hyggju að koma fram með tillögur sem væru í anda þess sem kom fram í skýrslu frá árinu 2007, þá undir forystu Björns Bjarnasonar, sem miðar að því að reyna að hafa áhrif á þeim stigum þar sem við getum haft áhrif. Það er á fyrstu stigunum. Við myndum skoða þá sérstaklega hvítbækurnar sem koma frá Evrópusambandinu og reyna, þegar eitthvað kemur illa við okkur eins og hefur nú oft komið upp varðandi innleiðingar á EES-gerðum, að beita áhrifum okkar á fyrstu stigum. Ég veit að hv. þingmaður var ekki kannski að spyrja sérstaklega um þetta en það tengist þó þessum málum.

Stóra einstaka málið er að vinnan varðandi Brexit-málið er ekki sokkinn kostnaður vegna þess að sú vinna mun nýtast okkur í mjög mörgu fleiru. Það liggur fyrir að öllu óbreyttu að við munum sjá hreyfingar á fríverslunarsamningum í nánustu framtíð m.a. vegna fyrirætlana Breta um að vera með það sem þeir kalla alþjóðlegt Bretland og þeir hafa áhuga á því að gera fríverslunarsamninga eftir að þeir fara út og fá sína sjálfstæðu viðskiptastefnu. Við höfum séð að Evrópusambandið hefur m.a. farið að hreyfa sig hraðar í þessa áttina í kjölfar þess. Þetta er nokkuð sem við sem fríverslunarþjóð þurfum að vera mjög vel vakandi yfir. Til þess að gera það þá þurfum við að vinna heimavinnuna okkar og hafa frumkvæði, sérstaklega í þeim samtökum sem sjá um þetta fyrir okkar hönd, þá er ég að vísa í EFTA. (Forseti hringir.) Þessi vinna sem er unnin núna mun því nýtast í mörgu fleiru en sem snýr bara að viðskiptasamningum okkar og Breta.