148. löggjafarþing — 3. fundur,  15. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[18:34]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Hæstv. forseti. Fjárlagafrumvarpið sem við ræðum hér er skilgetið afkvæmi stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar, plagg sem gæti sem best heitið, eins og leikrit Shakespeares, Ys og þys út af engu. En á þeim örstutta tíma, í þessari örstuttu umræðu, sem ég fæ til að ræða þetta frumvarp langar mig að fara ögn yfir hlut aldraðra í fjárlagafrumvarpinu.

Ríkisstjórnin boðar hækkanir fjárheimilda vegna lyfjakostnaðar og tannlæknakostnaðar aldraðra. Það er vel. Tími hefur hins vegar ekki gefist til að fara yfir það hvernig þær fjárheimildir koma niður og hverjum þær myndu gagnast mest. Mig langar að gera að sérstöku umræðuefni hækkun frítekjumarks upp í 100 þús. kr. sem er hreint húmbúkk. Þessar 100 þús. kr. ná ekki einu sinni upp í 109 þús. kr. sem frítekjumarkið var í áður en það var lækkað niður í 25 þús. kr. Núverandi hæstv. forsætisráðherra sór á fundi í Háskólabíói nú í haust að færa frítekjumarkið til þeirrar upphæðar, þ.e. 109 þús. kr. Það er hins vegar næsta víst að Miðflokkurinn mun koma fram með breytingartillögu við 2. umr., í samræmi við kosningamál flokksins, um að atvinnutekjur rýri ekki lífeyristekjur. Það er satt að segja furðuleg forsjárhyggja að pólitíkusar eigi að ákveða fyrir eldri borgara, sem vilja og geta unnið, að þeir megi hafa 25 þús. kr. eða 100 þús. kr. eða eitthvað annað í laun án þess að það byrji að rýra tekjur þeirra af lífeyri.

Það er jú þannig að þetta ágæta fólk borgar skatt af þessum launum. Ég ætlaði einmitt að koma inn á það að af þessum meinta milljarði, sem þessi hækkun frítekjumarks í 100 þús. kr. á að kosta, munu væntanlega 400 milljónir koma til baka í tekjuskatti. Um er að ræða um 600 milljónir sem ríkissjóður ætti þá að verða af vegna þessarar hækkunar.

Þá hlýtur maður að spyrja: Hvernig er þeirrar upphæðar aflað? Þessara 600 milljóna? Jú, það er nefnilega snilldin. Með því að hækka fjármagnstekjuskatt um 10%, upp í 22%. Það vill þannig til að þeir sem voru 67 ára og eldri á Íslandi árið 2016 fengu í kringum 36 milljarða í fjármagnstekjur. Af því voru greiddir 6 milljarðar í fjármagnstekjuskatt. Plús 10%. 600 milljónir. Það eru sem sagt þeir eldri borgarar sem hafa fjármagnstekjur sem eiga að greiða fyrir hækkað frítekjumark.

Ég held að allir þeir sem styðja þessa ríkisstjórn hljóti að vera bólgnir af stolti yfir þessu. Að gera þetta fyrir eldri borgara, að láta þá borga sjálfa fyrir aukið frítekjumark. Megnasta snilld. Segið svo að ekki sé hægt að draga kanínuna tvisvar upp úr sama hatti.

Ég vildi líka koma inn á orð landlæknis um daginn. Hann sagði að það væri ekki vís leið til framfara að byggja hjúkrunarheimili mjög hratt — það tekur jú tíma að reisa slík heimili — heldur lagði áherslu á að heimaþjónusta yrði efld. Ég sé ekki neitt í þessu plaggi um að slíkt sé fyrirhugað. Eins og margir vita getum við styrkt heimaþjónustu strax á morgun ef peningar eru til og brúað bil sem er til til byggingar hjúkrunarheimila. Um daginn var sagt af hálfu Reykjavíkurborgar að töluverða fjármuni vantaði inn í þessa starfsemi, t.d. hér á höfuðborgarsvæðinu. Ég skil ekki fyrir mitt litla líf af hverju menn taka ekki áskorun landlæknis og leggja áherslu á aukna þjónustu við þá sem geta verið heima eða eru heima, til þess alla vega að brúa það bil sem er til staðar þar til fjölgun hjúkrunarheimila, sem talað er um í loðmullulegri grein í þessu plaggi, verður að veruleika. Ég skora á menn að girða sig í brók og koma fram með alvörutillögu í þessu efni.