148. löggjafarþing — 3. fundur,  15. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[20:04]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir þetta. Ég tel að það myndi duga fyrir áramót að mæla fyrir, taka umræðu um fjármálastefnuna og senda hana til nefndar sem væntanlega fær fyrir áramót álit fjármálaráðs. Það er margt sem ég held að við þurfum að ræða og skoða í fjármálastefnunni. Við erum enn að læra. Þetta er þriðja fjármálastefnan sem er lögð fram á grundvelli nýrra laga um opinber fjármál en við sjáum enn hluti eins og t.d. það hvernig hagspár geta breyst innan árs. Við sjáum það til að mynda á þessu ári að hagspáin breyttist töluvert inn á næstu ár, bara frá vorinu fram á haustið. Þegar þetta getur gerst ítrekað, ár eftir ár, safnast upp áhrifin af breytingunum aftast á tímabilið sem horft er á í fjármálastefnunni. Þegar við komum saman, ný ríkisstjórn, og setjum fram stefnu um það hver á að vera heildarafkoma hins opinbera og fyrirtækja hins opinbera eða bara ríkisins árið 2022 þá byggjum við það á hagspám eins og þær líta út í dag. En lögin gefa í raun og veru nánast ekkert svigrúm til þess að taka það upp til endurskoðunar á kjörtímabilinu.

Þetta er eitt af því sem ég myndi vilja ræða, hvort við ættum kannski að skapa meira svigrúm í lögin í framtíðinni, sérstaklega aftast á áætlunartímabilinu, eða eftir atvikum að taka upp ákvæði sem fjallar um það hvernig á að bregðast við ef forsendur bresta. Eins og lögin eru í dag höfum við sett mjög stíf — mjög stíf — skilyrði fyrir því að fjármálastefnan sjálf sé tekin upp. Allt þetta þarf að ræða. Þess vegna styð ég heils hugar þá hugsun sem hv. þingmaður kemur hér með, að við tökum tíma í fjármálastefnuna.