148. löggjafarþing — 4. fundur,  16. des. 2017.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2018.

3. mál
[11:55]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ljómandi fína ræðu. Ég var nú bara sammála honum í öllum meginatriðum sem hann fór yfir, eftir því sem ég fæ best skilið. Ég hlakka til að vinna með hv. þingmanni í hv. efnahags- og viðskiptanefnd.

Ég velti fyrir mér hvort hv. þingmaður geti frætt mig og áheyrendur eitthvað meira um þennan fjármagnstekjuskatt, sér í lagi þær breytingar sem hafa verið viðraðar um að fjármagnstekjuskattur sé tekinn af raunávöxtun en ekki nafnávöxtun, þ.e. þeirri ávöxtun sem kemur af raunvöxtum annars vegar og nafnvöxtum hins vegar, munurinn verandi sá að ef skattstofn fjármagnstekjuskatts er nafnávöxtunin — er ég að fara rétt með orð? ég vona það — þá er hætt við því að ef verðbólgan fer mjög hátt getur ávöxtunin orðið neikvæð. Þegar maður leggur fyrir inn á verðtryggðan reikning er punkturinn sá að innstæðan haldi verðgildi sínu. Þannig að þegar nafnvextir eru notaðir sem viðmið dregur það svolítið úr heila tilganginum með því að leggja inn á verðtryggðan reikning. Það er það sem mér finnst skrýtið við núgildandi fyrirkomulag. Þess vegna er ég ekki alveg búinn að gera upp hug minn gagnvart þessu atriði.

Hins vegar skilst mér að það væri einsdæmi hér ef við ætluðum að fara að reikna út fjármagnstekjuskatt út frá raunávöxtun. Sömuleiðis myndi það hafa, að manni sýnist í fljótu bragði án þess að ég hafi reiknað það út, að fara úr 20% í 22% afskaplega lítið að segja með hliðsjón af slíkri breytingu.

Ég hefði gagn af því og að ég held umræðan ef hv. þingmaður færi aðeins yfir hvar hann stendur í þessu máli og hvers vegna.