148. löggjafarþing — 4. fundur,  16. des. 2017.

útlendingar.

7. mál
[12:48]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Dæmið sem hv. þingmaður nefnir og varðar skiptinemana er kannski svolítið af svipuðum meiði og þau mistök sem hafa orðið hér við að fella niður iðnnámið. Ég ætla ekki að fullyrða neitt um það, en það lítur út fyrir að menn hafi kannski svolítið mikið verið að einbeita sér að háskólastiginu og misst sjónar á iðnmenntun og öðru. Það er auðvitað ekki gott. Mönnum er svolítið gjarnt að gera þetta. Þetta á að vera brýn áminning til þeirra sem taka að sér endurskoðun eða samningu laga að tapa sér ekki í eigin hugarheimi eða eigin aðstæðum og líta á málið frá aðeins öðru sjónarhorni líka.

Ég held að það sé mikilvægt að kalla saman þennan samráðshóp og mun gera það fljótlega. Ég tel hins vegar, svo ég haldi nú væntingum í hófi, að það sé kannski aldrei hægt að rýna þannig að menn sjái allt sem upp kann að koma. Það er auðvitað sjálfsagt (Forseti hringir.) að reyna að fara yfir það sem mönnum þykir þurfa leiðréttingar við.