148. löggjafarþing — 4. fundur,  16. des. 2017.

dómstólar o.fl.

8. mál
[14:09]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Menn eru gjarnir á það hér í þessum þingsal að snúa svolítið út úr lagabreytingum sem lagðar eru fyrir þingið á þann veg að finna þeim allt til foráttu og telja þær bera þess merki að mikil handvömm hafi orðið. Í einhverjum tilvikum er það auðvitað þannig. Það geta hafa orðið mjög mikil mistök við lagasetningu, það gerist af og til við ýmsa lagasetningu. En það er ekki þannig að þegar menn eru að setja á stofn nýjan dómstól, heilt nýtt dómstig, í fyrsta sinn á Íslandi, þ.e. nýjan dómstól til hliðar við þá tvo sem hér starfa, að óeðlilegt sé að menn þurfi aðeins að skerpa á reglum í kringum það og liðka til fyrir framkvæmd í þeim efnum. Að kalla það verulega handvömm og að hér hafi farið fram reddingar — í raun er talað niður til þingsins eins og það sé verið að redda hlutum. Hér er löggjafi sem er ætlað að setja reglur og menn gera það í þessum sal af yfirvegun og að athuguðu máli. Það er ekki, finnst mér, mönnum bjóðandi að tala um það sem einhverjar reddingar.

Hvað Landsrétt varðar að öðru leyti þá tekur hann til starfa núna 1. janúar, hann mun gera það. Það þarf engar frekari lagabreytingar til þess að hann taki til starfa. Ég ætla ekkert að fullyrða um það til framtíðar hvort ekki þurfi mögulega að breyta reglum einhvern tíma um dómstólana. Ég hef til að mynda haft áform um að leggja fram frumvarp til laga um hagsmunaskráningu dómara. Það hefur ekki verið kveðið á um það í lögum um dómstóla, aldrei nokkurn tíma. Ég tel tíma til kominn að gera það og hefði gert það á haustþingi ef ekki hefði verið út af svolitlu. Það þarf endalaust að taka til hendinni og meta löggjöf í ljósi reynslunnar, þróunar í samfélaginu og annars. Það á við um Landsrétt í heild. Það á líka við um skipun (Forseti hringir.) dómara og setningu til framtíðar.