148. löggjafarþing — 4. fundur,  16. des. 2017.

dómstólar o.fl.

8. mál
[14:15]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Það er um margt óvenjulegt að ég sé hér að ræða þessi mál. Eins og fram kom hjá hv. þingmanni er ég settur dómsmálaráðherra í þessu einstaka máli af ástæðum sem hv. þingmaður nefndi. Eftir því sem ég best veit er um að ræða átta dómara sem á að setja. Núna er málið í efnislegri umfjöllun hjá þeirri nefnd sem fer með þetta. Hv. þingmaður verður að virða það að ég vil sem minnst um málið tala þangað til ég er búinn að fá umsögn nefndarinnar og get tekið afstöðu til hennar. Auðvitað verður allt gert til að sjá til þess að þetta valdi sem minnstri röskun á starfsemi dómstólanna. En á þessu stigi er voða lítið um málið að segja og um það sem að mér snýr því að málið er í efnislegri umfjöllun í nefndinni. Ég hef ekki fengið neina umsögn eða álit. Ég efa hins vegar ekki að dómstólar landsins muni starfa áfram, eins og hingað til. Ég held að engar ástæður séu á þessu stigi til að vera með miklar svartsýnisspár. En eins og ég segi, málið er í þessum farvegi og ég vil sem minnst um það tala, af augljósum ástæðum, meðan það er í efnislegri umfjöllun.