148. löggjafarþing — 4. fundur,  16. des. 2017.

þjónusta við fatlað fólk með miklar stuðningsþarfir.

26. mál
[15:20]
Horfa

Halldóra Mogensen (P) (andsvar):

Forseti. Mig langar til að þakka hæstv. ráðherra fyrir ítarlega og góða yfirferð og fyrir að sýna vilja sinn svo skýrt í málinu, sem er ekkert endilega sjálfsagt í þessu húsi.

Mig langar samt að koma einu á framfæri og spyrja hæstv. ráðherra. Það er jákvætt að verið sé að fjölga NPA-samningum úr 55 í 80 í bráðabirgðaákvæðinu sem verið er að framlengja. Það væri áhugavert að vita hvaðan sú tala, 80, kemur, því að samkvæmt skýrslu verkefnisstjórnarinnar um samstarfsverkefnið NPA, sem var skipuð af ráðuneytinu, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, ÖBÍ og fleirum, er þörf á 136 samningum fyrir næsta ár. 80 samningar er aðeins um 59% af því. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra: Hvaðan kemur þessi tala? Af hverju 80 samningar?