148. löggjafarþing — 4. fundur,  16. des. 2017.

þjónusta við fatlað fólk með miklar stuðningsþarfir.

26. mál
[15:28]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mig langaði aðeins að ræða við hv. formann velferðarnefndar um það sem hún gerði að umtalsefni í ræðu sinni, sem er ferill málsins. Ég fagna því að þessi mál séu komin fram aftur og hlakka til að takast á við þau. Þau sjónarmið sem við þurfum að hafa í huga við vinnuna eru að margir bíða eftir að óvissunni um það hvernig lögin munu líta út verði eytt, þannig að fólk geti séð og verið örugg með það hvernig framtíðarmálum þess verður háttað þegar kemur að þjónustu þeirra og réttindum. Þá vil ég benda á það varðandi NPA að tilraunaverkefni hefur verið í gangi í sex ár. Undirbúningur að þeim lögum sem liggja fyrir hér hefur verið unnin í fullu samráði í þrjú ár. Það sem er hér er sem sagt málamiðlun.

Hv. formaður nefndarinnar nefndi að ekki væri búið að svara öllum þeim athugasemdum sem hefðu komið fram. Ég vil benda á það sama og hæstv. ráðherra benti á í ræðu sinni, það að gera miklar breytingar hefur mikil áhrif á annað. Þetta frumvarp er viss málamiðlun. Ég held að mjög mikilvægt sé að hafa í huga að þau atriði sem gerðar eru miklar athugasemdir við eru atriði sem er svarað í reglugerðunum og í handbókinni. Það er mjög erfitt að klára reglugerðina, handbókina, fyrr en lögin hafa verið samþykkt.

Ég tel afar brýnt að við vinnum mjög hratt að því að afgreiða þessi lög svo að reglugerðarvinnan geti klárast. Við höfum þá tíma í vor til að bregðast við ef eitthvað kemur upp á í löggjöfinni áður en lögin eiga að taka gildi. Ég vil fá sjónarmið hv. formanns í þessu.