148. löggjafarþing — 5. fundur,  19. des. 2017.

velferðarmál.

[13:33]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Með leyfi:

„Og framfærsla þeirra hópa sem veikast standa í samfélaginu? Ekki var nú lítið rætt um hana fyrir síðustu kosningar. Við eigum að tryggja öllum sem búa í þessu landi viðunandi og mannsæmandi framfærslu, hvort sem við tölum um laun öryrkja og aldraðra, lágmarkslaun eða atvinnuleysisbætur. Það er algjörlega óviðunandi að á tímum þar sem um fátt annað er talað en efnahagslegan uppgang sitji stórir hópar eftir, langt undir þeim viðmiðum sem stjórnvöld telja eðlileg til að standa undir framfærslu.“

Þetta sagði hæstv. forsætisráðherra, Katrín Jakobsdóttir, á eldhúsdegi 29. maí sl. Síðan hafa verið lögð fram tvö fjárlagafrumvörp, fjárlög síðustu ríkisstjórnar, sem ráðherra kallaði sveltistefnu, og annað nú í desember, frá hennar eigin ríkisstjórn, sem er 98% eins og fyrra fjárlagafrumvarp. Þótt vissulega sé bætt 2% í útgjöld ríkisins í nauðsynlegustu innviði er engin viðleitni til að bæta kjör þeirra sem eru í mestum vanda eða slá á vaxandi ójöfnuð. Þetta fólk hlýtur því að kalla þetta frumvarp sveltistefnu. Barnabætur hækka ekkert frá fyrra fjárlagafrumvarpi, hið sama má segja um fæðingarorlofið. Engin aukning vaxtabóta, þær dragast saman um 2 milljarða, húsnæðisbætur til leigjenda óbreyttar. Óbreytt fjárhæð í íbúðauppbyggingu, sem er þó brýnasta úrlausnarefni samtímans.

Ekki er gert ráð fyrir þeim öldruðu sem ekki geta unnið og 40% þeirra ná ekki framfærsluviðmiðum. Ekki er gert ráð fyrir afnámi á krónu á móti krónu skerðingu hjá öryrkjum. Því hlýt ég að spyrja: Hvar birtast aðgerðir ríkisstjórnarinnar til að koma til móts við þetta fólk? Hyggst ríkisstjórnin grípa til bráðaaðgerða fyrir þetta fólk og þá hvernig?