148. löggjafarþing — 5. fundur,  19. des. 2017.

velferðarmál.

[13:39]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég verð að segja að hv. þingmanni kann að finnast svörin þunn en ég heyri ekki betur en að hann sé algjörlega sammála mér um þær áherslubreytingar sem ég var að lýsa, þ.e. um aukin framlög til menntakerfisins, hækkun á fjármagnstekjuskatti. Hv. þingmaður nefnir heilbrigðiskerfið, þar er verið að draga úr greiðsluþátttöku, sérstaklega fyrir þá hópa sem veikast standa, aldraða og öryrkja. Að sjálfsögðu þarf að fara svo í kerfisbreytingar og skoða sérstaklega því að hv. þingmaður nefndi hér krónu á móti krónu skerðinguna sem ég held að allir hér inni í þessum sal séu sammála um að þurfi að endurskoða. Þetta þurfum við að gera hratt, ég held hins vegar að hv. þingmaður átti sig á því að þegar fjármálaáætlun mun liggja fyrir á vormánuðum verður hægt að ræða miklu meira um framtíðarsýn, ekki síst þegar kemur að kerfisbreytingum sem hv. þingmaður vísar hér til og af því að hann talar um orð mín um sveltistefnu áttu þau raunar einmitt við um fjármálaáætlun fyrri ríkisstjórnar. Við þurfum að átta okkur á því að í þessum fjárlögum er verið að gera mjög mikilvægar breytingar sem snúast um nákvæmlega það sem sagt var fyrir kosningar, ef hv. þingmaður man eftir því, þar lagði ég ávallt sérstaka áherslu á heilbrigðismál og menntamál og við því er brugðist í þessu fjárlagafrumvarpi, sama hvað hv. þingmaður hristir hausinn ótt og títt.