148. löggjafarþing — 5. fundur,  19. des. 2017.

bankamál.

[13:45]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Eins og hæstv. ráðherra nefndi munum við fjalla betur um þetta þegar við ræðum þingsályktunartillögu sem Miðflokkurinn hefur lagt fram varðandi Arion banka. En mér þótti síðasta svar hæstv. ráðherra nokkuð áhugavert, að við viss skilyrði myndi ekki myndast þessi forkaupsréttur. Er hæstv. ráðherra sem sagt að opna einhverja glufu, segja mönnum að þeir geti fundið einhverja leið fram hjá því að virkja forkaupsréttinn, rétt eins og þeir fundu leið til að selja sjálfum sér bankann og komast fram hjá því sem stóð til í þeim stöðugleikaskilyrðum sem hæstv. ráðherra nefndi?

Það má rifja upp fyrir hæstv. ráðherra að Kaupþing þarf að greiða skuldabréf til ríkisins innan árs vegna þessara stöðugleikaskilyrða, stöðugleikaframlags sem á þeim byggðu. Það verður að gerast með því sem kemur fyrir Kaupþing. Hyggst ráðherrann heimila eftirgjöf á forkaupsréttinum til þess að fá þetta skuldabréf greitt, eða (Forseti hringir.) telur hann æskilegra að ríkið leysi til sín bankann og fái þannig þessa greiðslu?