148. löggjafarþing — 5. fundur,  19. des. 2017.

ný stjórnarskrá, rannsókn á einkavæðingu bankanna.

[13:49]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina þar sem hún tæpti raunar á nokkrum málum. Í fyrsta lagi heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar. Ég vil nota tækifærið, þótt hv. þingmaður hafi nú ekki beinlínis spurt um það, en í ljósi þess að það verða kannski ekki margir fyrirspurnatímar hér á þingi, og segja að ég hyggst óska eftir fundi með formönnum allra flokka á þingi snemma eftir áramót til þess að fara yfir það mál eins fljótt og unnt er í upphafi nýs þings. Mín von er sú, í ljósi þess, eins og hv. þingmaður þekkir mætavel, að andstæð sjónarmið og ólík eru uppi milli ólíkra flokka í þessu máli, að við getum að minnsta kosti sammælst um það ferli sem við viljum setja þessa heildarendurskoðun í. Hv. þingmaður þekkir mína sýn á þetta mál og ég þekki sýn flestra flokka hér inni á það, kannski ekki þeirra flokka sem eru nýir á þingi. Ég held að það sé mikilvægt að við setjumst niður og reynum að sammælast um eitthvert ferli og ég vonast til að það geti gengið eftir fljótlega á nýju ári.

Hv. þingmaður ræðir svo um bankana, stjórnarsáttmálann og það sem sagt er um fjármálafyrirtæki þar. Þar er vitnað til þeirra fyrirætlana okkar sem við munum einnig eiga samtal um við alla flokka á þingi, þ.e. við viljum ráðast í gerð svokallaðrar hvítbókar um fjármálakerfið til þess að mæta því sem hefur verið talsvert rætt hér á þingi að það liggi fyrir framtíðarsýn um fjármálakerfið. Nú hefur mjög margt verið gert á undanförnum árum til að bæta regluverk fjármálamarkaðar eins og hv. þingmenn þekkja en eigi að síður eru aðstæður hér á landi um margt sérstakar og það er mikilvægt að við tökum afstöðu til þeirra álitamála sem hafa verið uppi.

Hvað varðar þá rannsókn sem hv. þingmaður vísar í sem er mál sem var hér rætt eftir að kynntar voru niðurstöður rannsóknar á einkavæðingu Búnaðarbankans og þætti Hauck & Aufhäuser í því máli, þá liggur það mál á borði stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Ég myndi mælast til þess að nýr formaður (Forseti hringir.) hv. stjórnskipunar og eftirlitsnefndar tæki þetta mál upp í nefndinni og nefndin lyki sinni umfjöllun um það mál, þ.e. tæki afstöðu til þeirra gagna sem þegar lágu fyrir í meðferð nefndarinnar.