148. löggjafarþing — 5. fundur,  19. des. 2017.

fjármögnun kosningaauglýsinga.

[14:04]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra kærlega fyrir mjög fín svör og upplýsandi. Ég mun beina þessu líka til okkar framkvæmdastjóra, Viðreisnar, að við tökum vel í þessa beiðni forsætisráðherra. En við megum ekki bara líta á þessa fjármögnun innan lands. Það er miklu stórfelldari hætta eða ógn sem steðjar almennt að lýðræðinu. Við Íslendingar stöndum frammi fyrir því að opnaðar verða siglingaleiðir norður í gegnum norðurslóðirnar. Það eru miklir hagsmunir sem því tengjast. Geta ákveðin öfl sem vilja nýta sér það farið í að fjármagna tiltekna hópa, tiltekna stjórnmálaflokka? Eða þau fyrirtæki sem vilja efna til stórtækari olíuleitar en nú er, munu þau fara í að fjármagna með einhverjum hætti, beinum eða óbeinum, stjórnmálaflokka? Þetta er það sem við verðum að upplýsa almenning um. Þess vegna fagna ég jákvæðum hug forsætisráðherra um leið og ég vil geta þess að ég mun undirstrika það að Ríkisendurskoðun fari í þessar síðustu kosningar, þær verði skoðaðar, að við reynum að læra af þeirri reynslu sem við (Forseti hringir.) öðluðumst þar, en líka hugsanlega í kjölfarið fylgja því eftir með skýrslubeiðni hér á Alþingi.