148. löggjafarþing — 5. fundur,  19. des. 2017.

ný vinnubrögð á Alþingi.

[14:10]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Af hverju þurfum við ný vinnubrögð? Það er dálítið flókin spurning. Ég segi já, við þurfum ný vinnubrögð, en hvernig vinnubrögð eiga það að vera og af hverju? Það er ekki alveg hægt að svara því fyrr en við skiljum vandamálið. Til þess þurfum við að segja hvað okkur finnst og spyrja aðra hvað þeim finnst vera að, sem er tilgangurinn með þessari umræðu. Við erum að spyrja okkur öll hvað okkur finnst vera að. Ef við getum síðan komið okkur saman um hvað er að getum við reynt að finna lausn á þeim vandamálum.

Ég er að reyna að segja í allt of stuttu máli hvað mér finnst aðallega vera að á Alþingi, þótt það sé líka ýmislegt annað að vísu. Ég tek það fram að athugasemdir mínar eru almennar en ekki algildar, en vegna þess að þær eru almennar en ekki sjaldgæfar þá eru þær vandamál. Vandamálið hvað mig varðar er tvenns konar, það er annars vegar mannlegt og hins vegar kerfislægt.

Mannlega vandamálið lýsir sér þannig að hér er farið í manninn eða sagt að verið sé að fara í manninn. Gert er mál úr engu eða ekkert gert úr miklu. Fólki eru gerðar upp skoðanir. Enginn viðurkennir mistök. Þetta er ekki tæmandi listi en ég held að þið skiljið hvað ég á við.

Svo er það hitt vandamálið: Kerfið. Það hefur nefnilega áhrif á það hvað við gerum og hvað við segjum. Við glímum við kerfislægt valdamisvægi. Meirihlutavaldið er algert fyrir utan eitt; málþóf og þau áhrif sem málþóf hefur á þinglokastarfið. Meirihlutavaldið eitt og sér er ekki vandamál. Meiri hlutinn ræður auðvitað, þannig virkar lýðræðið. En við vitum að það er hægt að misnota vald. Þess vegna setjum við okkur reglur, til þess að vernda okkur fyrir misbeitingu. Þess vegna höfum við t.d. mannréttindi, til að vernda minnihlutahópa fyrir misbeitingu valds. Reglurnar sem verja minni hlutann á þingi fyrir misbeitingu valds eru einfaldar, mjög einfaldar í rauninni af því það er aðeins ein regla; málfrelsi. Stundum er það kallað málþóf af því það er leið valdsins til þess að gera lítið úr réttindum fólks, svo ég vísi aftur í mannlega hluta vandans.

Misbeiting meirihlutavaldsins er síðan tvenns konar. Annars vegar ræður meiri hlutinn því hvenær og hvernig mál fara á dagskrá og hins vegar ræður hann með því að stjórna aðgengi að upplýsingum, annaðhvort með tíma eða skorti á svörum eða töfum eða öðru. Þingmenn fá yfirleitt mjög lítinn tíma áður en mál koma á dagskrá, litla aðstoð við tæknilegan skilning á málum og mjög takmarkaðan aðgang að upplýsingum. Allt leggst þetta saman og úr verður ringulreiðin sem við búum við hérna, svo ég minnist á það sem er að gerast þessa dagana með fjármálin, það er ringulreið og miklu meiri en venjulega. Almennt séð er þetta sama vandamál.

Afleiðingin er að umræðan leiðist út í pólitíska bábilju og mannlega vandamálið sem ég lýsti áðan tekur öll völd í atburðarásinni. Viðfangsefnið hættir að skipta máli og lýðræðislega ferlið skilar af sér gallaðri niðurstöðu. Lýðræðislega ferlið skilar af sér gallaðri niðurstöðu af því að við förum í manninn þangað til þingi lýkur, málið er fellt niður og við þurfum að byrja allt saman upp á nýtt. Þetta er hringavitleysa, vítahringur. Allt í lagi.

Til þess að laga mannlega vandamálið legg ég til fjórar þumalputtareglur, þrjár fyrir stjórnina af því hún eru í meiri hluta og eina fyrir stjórnarandstöðuna.

1. Ráðherrar þurfa að hlusta og meðtaka gagnrýni.

2. Ráðherrar þurfa að svara spurningum heiðarlega og undanbragðalaust.

Ég tók einmitt eftir því áðan í óundirbúnum fyrirspurnum að ráðherra svaraði ekki spurningunni um einkavæðingu bankanna þar sem spurt var hvort það ætti að tefja eða ekki hefja einkavæðingu bankanna fyrr en búið væri að gera rannsókn. Þeirri spurningu var bara ekki svarað. Þetta er eitt dæmi.

3. Ráðherrar þurfa að axla ábyrgð á mistökum. Ég tel þetta vera gríðarlega mikilvægar reglur sem við þurfum að fara að fylgja.

4. Og þetta er fyrir stjórnarandstöðuna, sem er ekki þeim mun minni: Stjórnarandstaðan gerir ekki úlfalda úr mýflugu eða galar úlfur, úlfur. Það er allt of mikið af því líka sem gerir það að verkum að enginn hlustar þegar við réttum upp höndina þegar það er í alvörunni eitthvað að.

Það eru til margar lausnir á kerfisvandamálinu, t.d. að mál falli ekki niður í lok þings, málskotsréttur minni hluta og þjóðarinnar, betri sérfræðistuðningur innan þingsins og opnir nefndarfundir.

Mér er ljúft og skylt að tilkynna að næsti Pírati í ræðustól Alþingis er Helgi Hrafn Gunnarsson.