148. löggjafarþing — 5. fundur,  19. des. 2017.

ný vinnubrögð á Alþingi.

[14:23]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Mig langar að byrja á því að þakka hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni fyrir að hefja umræðu um þetta mikilvæga mál sem ég hygg að hafi nú oft verið rætt í þessum sal og úti í samfélaginu á síðustu misserum. Með leyfi forseta, þegar ég fór að leita á veraldarvefnum rakst ég á eftirfarandi upphafsorð í grein í Morgunblaðinu:

„Umfjöllun um starfshætti Alþingis mun líklega seint fanga athygli margra eða kveikja heitar umræður um löggjafarsamkomuna og stöðu lýðræðis hér á landi.“

Þessi orð lét Þórunn Sveinbjarnardóttir, þáverandi þingkona Samfylkingarinnar, falla árið 2004. Síðan þá, eða síðan örugglega eftir hrunið, hugsa ég að þetta hafi nú einmitt verið það sem hafi fangað athygli mjög margra, bæði hér í þessum sal og úti í samfélaginu. Þegar ég kom inn á þing fyrir um ári síðan talaði ég einmitt um þetta í fyrstu ræðu minni, um starfið hér á þinginu og ásýnd þess úti í samfélaginu og leit svo á að það væri kannski fyrst og fremst okkar sem hér sitjum í þessum ágæta þingsal að breyta þessari orðræðu og ásýnd sem við endurvörpum út í samfélagið.

Ríkisstjórnin er skýr í stjórnarsáttmálanum um mikilvægi þess að efla og bæta samskiptin á þinginu en þar er tekið sérstaklega á því að eitt af forgangsmálunum er að auka sjálfstæði þingsins með auknum stuðningi við nefndastörf og þingflokka. Í þágu aukins samráðs og breiðari samstöðu verði þverpólitískir hópar settir á fót um nokkur veigamikil verkefni. Ég verð að segja fyrir mitt leyti að ég hlakka mjög til þess verkefnis og geri ráð fyrir að ef viljinn er fyrir hendi í þessum sal sé það nákvæmlega okkar. Við getum breytt þessu.

Hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson fjallaði um skoðanaskipti og rétt til að skipta um skoðanir í ræðu sinni um stefnuræðu hæstv. forsætisráðherra og hnykkti á mörgum góðum þáttum. Ég held að valdið sé algerlega okkar hér inni. Eins og ein mæt kona sagði við mig: Hættum að rífast og förum að vinna.