148. löggjafarþing — 5. fundur,  19. des. 2017.

"Í skugga valdsins: #metoo".

[15:21]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Hér ræðum við ákaflega mikilvægt mál, samfélagsmiðlabyltinguna #metoo sem vakið hefur mikla athygli og hreyft við mörgum. Ég þakka sérstaklega hv. þm. Albertínu Friðbjörgu Elíasdóttur fyrir umræðuna og góða innleiðingu í hana, og eins hæstv. dómsmálaráðherra Sigríði Á. Andersen fyrir að vera tilbúin í þetta samtal við okkur hér.

Það er enginn vafi á að umræðan sem slík hefur haft mikil áhrif á einstaklinga, stuðlað að valdeflingu og hvetur hvern og einn til að líta í eigin barm um hvers konar hegðun sé samþykkt í daglegum samskiptum. Það er líka jafn mikilvægt að í þessum sal veltum við fyrir okkur hlutverki stjórnvalda við að finna leiðir til að festa breytinguna í sessi þar á meðal að finna farveg fyrir forvarnir, verkferla og lagaumhverfi sem tryggir að hægt sé að taka á þeim málum sem upp koma. Það þurfa margir að koma að því verki. Byltingin byggðist á breiðri samvinnu. Til þess að halda verkinu áfram þarf breitt samstarf. Þar eru dómsmálaráðuneyti og velferðarráðuneyti í lykilhlutverkum.

Eins og hæstv. dómsmálaráðherra kom inn á var nýlega endurskoðuð reglugerð um kynferðislega áreitni og kynbundið ofbeldi á vinnustöðum þar sem öllum vinnustöðum er skylt að gera áætlun um forvarnaaðgerðir og viðbrögð ef á reynir. Nú held ég að það sé fullt tilefni til þess að líta aftur yfir þá reglugerð og kanna hvort úrbóta sé þörf. Eins held ég að umræðan hljóti að ýta við öllum vinnustöðum, að kanna það og ganga eftir því hvort reglunum sé fylgt. Ég sé að tíminn er útrunninn (Forseti hringir.) en kalla þá eftir að koma hér í aðra ræðu í sinni umferð.