148. löggjafarþing — 5. fundur,  19. des. 2017.

"Í skugga valdsins: #metoo".

[15:31]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Albertínu Friðbjörgu Elíasdóttur fyrir það tækifæri að fá að ræða þetta mikilvæga mál í þessum sal. Einnig vil ég senda þakkir til allra þeirra milljóna kvenna sem tekið hafa þátt í #metoo-byltingunni um allan heim með því að deila reynslusögum sínum. Þær hafa gefið okkur raunverulegt tækifæri til að hætta þeirri miklu þöggun sem hefur verið um kynbundna og kynferðislega áreitni og gefið okkur tækifæri til að gera eitthvað í þessum málum.

Fyrir okkur sem störfum á vettvangi stjórnmálanna er mikilvægt að leggja flokkapólitík til hliðar og hugsa um stjórnmálin sem vinnustað og hvernig við viljum hafa menninguna í stjórnmálunum. Að sjálfsögðu kemur það inn á hvernig við munum stunda okkar pólitík. Það skiptir máli. Þetta er það sem allar, já, allar starfsstéttir þurfa að gera því að það er nokkuð ljóst að engin starfsstétt getur hér verið undanskilin.

Við verðum því að svara áskorun stjórnmálakvenna undir yfirskriftinni „Í skugga valdsins“ þar sem birtust ríflega hundrað sögur af kynferðislegri áreitni og ofbeldi á vettvangi stjórnmálanna. Það getum við gert með því að ræða í okkar hópi opinskátt um starfsumhverfi þingmanna og vinnustaðarmenningu Alþingis og leita svara við því hvernig Alþingi geti gert stjórnmálaþátttöku aðgengilegri fyrir alla, hvernig megi bæta starfsaðstæður innan Alþingis. Það þarf að kortleggja og meta umfang vandans. Við verðum að fara yfir siðareglur þingmanna með þessi mál í huga svo eitthvað sé nefnt.

Við á Alþingi sem og aðrir vinnustaðir höfum það verkefni að móta raunhæfar aðgerðir til úrbóta og bregðast við sjálfsögðu ákalli kvenna í stjórnmálum, kvenna í öllum starfsstéttum, kvenna um allan heim.