148. löggjafarþing — 5. fundur,  19. des. 2017.

bygging 5.000 leiguíbúða.

43. mál
[15:51]
Horfa

Flm. (Logi Einarsson) (Sf):

Herra forseti. Ég mæli fyrir þingsályktunartillögu um byggingu 5.000 leiguíbúða. Flutningsmaður er undirritaður ásamt öðrum þingmönnum Samfylkingar.

Húsnæðismál eru nú í algeru öngstræti og gríðarlegur vandi steðjar að. Verð á höfuðborgarsvæðinu er mjög hátt og á sama tíma er mikill skortur á leiguíbúðum. Sé fólk yfir höfuð svo heppið að þefa uppi leiguíbúð er verðið oft fólki ofviða. Margir geta því hvorki keypt né leigt. Ungt fólk sér ekki fram á úrlausn næstu árin.

Í dreifbýlinu blasir svo við annars konar vandamál. Þar vantar líka tilfinnanlega húsnæði en framleiðsluverð er langt yfir söluverði og enginn hvati til þess að byggja þar.

Ástandið á leigumarkaði hefur alvarlegar afleiðingar. Rannsóknir sýna að leigjendur eru mun líklegri til að eiga í fjárhagsvandræðum og börn leigjenda eru mun líklegri en önnur til að búa við fátækt og skort. Samhliða hækkun fasteignaverðs um 94% á höfuðborgarsvæðinu frá 2011 hafa aðstæður stórra hópa fólks sem eiga ekki húsnæði versnað mjög. Fólki í húsnæðisleit bjóðast einfaldlega ekki sanngjarnar lausnir í dag. Svar þar síðustu ríkisstjórnar, Sjálfstæðisflokks og Framsóknar, var svokölluð leiðrétting sem færði ríkasta fólki landsins tugi milljarða og keyrði auk þess upp fasteignaverð. Þá voru viðkvæmir hópar skildir algerlega eftir. Og ekki nóg með það, á sama tíma lækkuðu vaxta- og barnabætur að raunvirði, en það eru þau úrræði sem nýtast hvað best til að tryggja ungu fólki húsnæðisöryggi og koma í veg fyrir að börn séu á hrakhólum og vergangi milli skólahverfa og sífellt slitin burt frá vinum sínum og félögum. Fyrir tilstuðlan verkalýðshreyfingarinnar, aðallega, náðist mikilvægur árangur við gerð kjarasamninga árið 2015. Þá var samið um stofnstyrki til uppbyggingar á almennum leigumarkaði. Á þessi mál er hins vegar ekkert minnst í stjórnarsáttmálanum. Spurningin er: Verður staðið við þetta?

Þessa ræðu flutti ég svo að segja orðrétta síðasta vetur þegar ég ræddi við húsnæðismálaráðherra síðustu ríkisstjórnar. Það er greinilega engin vanþörf á að endurtaka hana hér og betra ef ráðherra málaflokksins hefði gefið sér tíma til að hlusta, en hann gerir það kannski í sjónvarpinu sínu uppi á skrifstofu. Það er alveg ótrúlegt að sjá að það er engar breyttar áherslur að finna hjá nýrri ríkisstjórn, hvorki í fjárlögum né stjórnarsáttmálanum. Nauðsyn þess að taka þessa umræðu upp og gera eitthvað í málunum hefur sannarlega ekki minnkað með tilkomu þessarar ríkisstjórnar.

Síðan hún varð til hafa ný gögn litið dagsins ljós frá Íbúðalánasjóði sem undirstrika mikilvægi þess að bregðast strax við af miklu meiri krafti en boðað er í fjárlögum. Þau sýna svart á hvítu að tekjulágir eigendur ráða ekki við að safna sér sparifé. Meira en helmingur af ráðstöfunartekjum þriðja hvers leigjanda fer beint til leigusalans.

Nú er svo komið að fjölskyldur með tvær fyrirvinnur sem eiga ekki fyrir útborgun í íbúð og njóta ekki hækkunar á húsnæðisverði eru með eilífar fjárhagsáhyggjur og á þeim sömu hrakhólum og ég talaði um áðan milli hverfa og skóla.

Við þurfum að byggja upp fjölbreyttan og öruggan leigumarkað og fjölga búseturéttaríbúðum með fjárhagslegri aðkomu hins opinbera. Það er mikilvægt að vinna áfram að slíkum útfærslum í nánu samráði og samstarfi við verkalýðshreyfinguna sem hefur tryggt þann árangur sem þó hefur náðst með gerð kjarasamninga. Þá kom inn fjármagn til að byggja 2.300 almennar leiguíbúðir. Í þingsályktuninni sem er mælt fyrir er lagt til að þau áform verði tvöfölduð, að byggðar verði 5.000 almennar leiguíbúðir til að koma jafnvægi á sýktan húsnæðismarkað sem setur allt of marga í fátæktarklemmu, sem er í rauninni skortstaða sem veldur því að þeir sem halda á húsnæði og gera út á leigumarkaðinn geta ráðið verðinu á íbúðum. Hér er ekki um neina heilbrigða samkeppni að ræða.

Það er mikið byggt um þessar mundir. Því miður er það hins vegar ekki á allra færi að kaupa þær íbúðir sem munu koma á markaðinn. Aðkoma ríkisins er nauðsynleg til að leggja grunn að traustum leigumarkaði til framtíðar. Fjölgun á íbúðum næstu ára verður þess vegna að vera hagkvæm fyrir samfélagið allt, ekki bara þá sem eiga peninga eða eru á höttunum eftir skyndigróða.

Herra forseti. Það þarf að vanda aðkomu ríkisins. Hún þarf að vera í nánu samstarfi við sveitarfélögin í landinu og Íbúðalánasjóð. Meta þarf hvar þörfin er fyrst og fremst fyrir nýtt húsnæði og tryggja að uppbyggingin eigi sér stað þar. Til að setja hlutina í samhengi áætlar Íbúðalánasjóður t.d. að til ársloka 2019 verði þörf fyrir 9.000 íbúðir í landinu og rúmlega 2.000 íbúðir á hverju ári eftir það.

Þess vegna er lagt til að aðkoma ríkisstjórnarinnar að uppbyggingu 5.000 íbúða samkvæmt þingsályktunartillögu þessari verði á grundvelli laga um almennar íbúðir, nr. 52/2016, en þá voru Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur einmitt í ríkisstjórn þannig að þeir hljóta að styðja þetta mál. Sterk félög sem leigja íbúðir út án hagnaðarsjónarmiða eru mjög mikilvægur hluti af húsnæðiskerfi nágrannaþjóðanna. Við þurfum að stefna þangað. En þetta er ekki til í nægilegu marki á Íslandi. Það ýtir undir óstöðugleika og fátækt fólks.

Ég skora því á þingheim að taka vel í þessar tillögur og skoða þær vandlega og gera á þeim þær nauðsynlegu úrbætur sem þingið álítur að þurfi. En við þurfum að gera eitthvað til að koma til móts við fólk sem fær ekki notið ávaxtanna af þessari uppsveiflu og byggja upp heilbrigðan leigumarkað til framtíðar. Við skuldum leigjendum og ungu fólki sem ræður ekki við útborgun til að kaupa fyrstu íbúð miklu betri úrræði. Í rauninni skuldum við öllu fólki í landinu sem verst hefur kjörin að gera eitthvað í þess málum. Húsnæði er þrátt fyrir allt ein af grunnþörfum mannsins og skýrasta dæmið um það öryggi sem við eigum öll að njóta.

Hið opinbera verður því að stíga miklu fastar til jarðar og taka með þessu eitt af mörgum nauðsynlegum skrefum sem þarf í baráttunni gegn fátækt í landinu.

Tillagan kostar vissulega skildinginn, um 2–3 milljarða á ári næstu árin. En hér er um einskiptisaðgerð að ræða og einmitt tilvalið að nota þennan margumtalaða arð úr bönkunum í slíka aðgerð, sem ýtir ekki undir varanlega útgjaldaaukningu.

Að lokum tel ég að öflugur leigumarkaður í jafnvægi sé mjög skynsamleg fjárfesting og muni skipta sköpum fyrir líf fólksins núna en líka næstu tugi og hundruð ára. Ég legg að lokum til að þegar þessari umræðu er lokið verði málinu vísað til velferðarnefndar.